Sér mikið eftir orðum sínum

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV að hann sæi mikið eftir niðrandi ummælum sem hann lét falla um Vig­dísi Häsler Sveins­dótt­ur, fram­kvæmda­stjóra Bænda­sam­taka Íslands, á flokksþingi í tengsl­um við Búnaðarþing síðasta fimmtu­dag.

Sigurður lýsir atvikinu sem svo að þegar seint var liðið á samkomuna hafi starfsmenn Bændasamtakanna beðið hann að taka þátt í myndatöku sem fólst í því að lyfta Vigdísi í einhvers konar planka.

„Ég vildi ekki taka þátt af því mér fannst það óviðeigandi og missi þessi orð út úr mér sem ég sé mikið eftir,“ sagði Sigurður.

Mun ekki endurtaka ummælin

Ekki hefur enn fengist upplýst hvað það var nákvæmlega sem Sigurður sagði og hefur hann ekki viljað tjá sig um það.

Þegar hann var spurður hver ummælin voru í kvöldfréttunum svaraði Sigurður: „Það er einfaldlega þannig að það sem að einu sinni hefur verið sagt of mikið á maður ekki að segja aftur.“

Þá vildi Sigurður ekki tjá sig um það hvort að ummælin hefði snúist um húðlit Vigdísar. Af yfirlýsingu Vigdísar má ætla að ummælin hafi snúist um húðlit, kynþátt eða kynferði hennar.

Sigurður segist hafa reynt að hafa samband við Vigdísi til að biðja hana afsökunar strax daginn eftir og síðan í gegnum formann Bændasamtakanna um helgina. Þá sagðist Sigurður vonast til þess að fá tækifæri til að hitta Vigdísi og setjast niður og fara yfir málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert