Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, vildi ekki tjá sig frekar um ummæli sín í garð Vigdísar Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, þegar fjölmiðlar ætluðu að ræða við ráðherrann að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Vísaði hann þess í stað í yfirlýsingu sína um málið sem hann skrifaði á Facebook í gær.
Vigdís greindi frá því á facebook-síðu sinni í gær að Sigurður Ingi hefði látið niðrandi ummæli falla um hana á flokkaþingi í tengslum við Búnaðarþing síðastliðinn fimmtudag.
„Starfsfólk Bændasamtakanna óskaði eftir því að innviðaráðherra og fleiri væru með í myndatöku sem ég kom síðar að. Þar voru afar særandi ummæli látin falla og heyrði bæði ég það sem og starfsfólk samtakanna,“ skrifaði Vigdís.
Ingveldur Sæmundsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, sagði hann ekki hafa notað slík orð og að hún hefði staðið við hlið hans.
„Aðstoðarmaður ráðherrans var ekki við hlið hans þegar ummælin voru látin falla, eins og hún hefur haldið fram en myndir úr þessari myndatöku sýna það án alls vafa. Það er særandi þegar reynt er að gera lítið úr upplifun minni og þegar beinlínis rangar skýringar eru notaðar við það. Ég stend með sjálfri mér þegar kemur að þessu, ég veit hvað ég heyrði, ég veit hvað var sagt. Ég neita að bera ábyrgð á þeim orðum sem ráðherrann viðhafði í minn garð. Duldir fordómar eru gríðarlegt samfélagsmein og grassera á öllum stigum samfélagsins. Þeir smætta verk einstaklinga og gjörðir niður í lit eða kyn,“ skrifaði Vigdís.
Í stuttri yfirlýsingu sinni á Facebook í gær sagði Sigurður að sér yrði á eins og öðrum.
„Í lífinu er maður alltaf að læra á sjálfan sig. Sárt er þó að sá lærdómur bitni á tilfinningum annarra.“
Sigurður Ingi hringdi enn fremur í Brynju Dan, varaþingmann flokksins, í gær og ræddi ummælin við hana.
Brynja sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að hún neiti því ekki að þetta sé sárt, ömurlegt og glatað. Henni hafi liðið illa í allan gærdag og sé að melta þetta. Sigurður Ingi sé fullur iðrunar og svekktastur út í sjálfan sig.