Mikil gagnrýni hefur komið fram á Twitter á hendur Ólafi Ragnari Grímssyni, fyrrverandi forseta Íslands, vegna orðræðu hans varðandi stríðið í Úkraínu sem sögð er vera höll undir Rússa.
Ólafur Ragnar endurtísti í gær myndskeiði þar sem Rússar á götum úti eru spurðir út í afstöðu sína til stríðsins í Úkraínu og hvernig þeir sjá fyrir sér framvindu þess. Við tístið skrifar Ólafur „Voices from the other side“ eða „Raddir frá hinni hliðinni“. Viðmælendur í myndskeiðinu segja meðal annars að Úkraína sé ekki alvöru þjóðríki, „bara bútur af landi sem að Lenín gaf einu sinni frá sér“, að þurrka þurfi landið út af yfirborði jarðar og að berjast verði við nasistana.
Voices from the other side. https://t.co/LP4x1Pj1AZ
— Ólafur Ragnar Grímsson (@ORGrimsson) April 5, 2022
Þá er viðtal Ólafs í Silfrinu frá því fyrir rúmum tveimur vikum rifjað upp, þar sem hann sagði stríðið í Úkraínu vera afleiðingu stækkunar Atlantshafsbandalagsins í Evrópu, og olli töluverðu fjaðrafoki í kjölfarið.