Mennirnir bandarískir útivistarkappar

Snjóflóðið féll úr Skeiðsfjalli.
Snjóflóðið féll úr Skeiðsfjalli. Ljósmynd/Aðsend

Mennirnir þrír sem urðu fyrir snjóflóðinu sem féll úr Skeiðsfjalli í Svarfaðardal í nágrenni Dalvíkur í kvöld, eru bandarískir ferðamenn sem eru sagðir vera vanir til útivistar og fjallamenn. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Talið er að þeir hafi verið á skíðum í fjallinu þegar snjóflóðið féll.

Enn hafa ekki borist upplýsingar um líðan þeirra en slysið er talið vera alvarlegt og slösuðust þeir allir.

Tveir voru fluttir með sjúkrabíl á sjúkrahúsið á Akureyri en sá þriðji var fluttur þangað með þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Tók þrjú korter að komast á staðinn

Tilkynning um snjóflóðið barst Neyðarlínunni klukkan 19:10 og var tilkynnandi einn þeirra. Hópslysaáætlun almannavarna var virkjuð en talið er að a.m.k. 130 hafi komið að aðgerðinni.

Það tók viðbragðsaðila um þrjú korter að komast á vettvang frá því að tilkynningin barst en þegar þeir mættu fundu þeir strax tvo menn og var annar þeirra slasaður. Sá þriðji fannst stuttu síðar í jaðri snjóflóðsins og var hann einnig slasaður.

Tveir læknar voru innanborðs í þyrlu Landhelgisgæslunnar sem lenti skammt frá vettvangi rétt eftir klukkan níu, var einn fluttur af vettvangi með henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert