Allt gekk að óskum þegar lendingaræfing bandarískra landgönguliða fór fram morgun í Hvalfirði í glampandi sól. Henni lauk nú rétt fyrir hádegi.
Aðgerðin sem er hluti af varnaræfingunni Norður-Víkingur, fór fram á Miðsandi í innanverðum firðinum. Nokkur hundruð tóku þátt í henni en alls koma á annað þúsund manns að varnaræfingunni í heild sinni.
Vopnaðir landgönguliðar komu á land af skipi bandaríska sjóhersins, sem var statt í minni Hvalfjarðar, með tveimur þyrlum og tveimur svifnökkvum.
Þeir sem komu af svifnökkvunum fóru á land á bryndrekum en áhöfn þyrlunnar fór á tveimur jafnfljótum. Förinni var heitið að skýlum sem voru í grennd við lendingarstaðina þar sem landgönguliðar æfðu árás.
Gafst gestum þá tækifæri til að skoða um borð í svifnökkvunum en fulltrúum utanríkisráðuneytisins og bandaríska sendiráðsins var m.a. boðið að koma og fylgjast með.
Samtök hernaðarandstæðinga höfðu skipulagt mótmæli í grennd við svæðið þar sem æfingin fór fram.
Mótmælendur voru þó hvergi sjáanlegir þegar blaðamann mbl.is bar að garði enda mikill viðbúnaður og strangt eftirlit með svæðinu.