„Það er að teiknast upp sú sviðsmynd sem maður hafði áhyggjur af. Sem er sú að litlum skammtíma fjárfestum hafi verið boðið að taka snúning á almenningseign.“
Þetta segir Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd Alþingis, í samtali við mbl.is um þær fregnir að 132 fjárfestar af þeim 207 sem tóku þátt í útboði Bankasýslu ríkisins á hlutum ríkisins í Íslandsbanka 22. mars hafi nú þegar selt sig niður að einhverju eða öllu leyti.
„Ef að þetta reynist rétt þá erum við að horfa upp á það að um þriðjungur af Íslandsbanka var seldur til í raun spákaupmanna, einstaklinga sem hafa líklega lagt mjög lítið undir og fengið tækifæri til að fjárfesta þarna í nokkra daga og leysa svo út gróða. Þetta á þá ekkert skylt við þann upphaflega tilgang sem var að finna hæfa fjárfesta að ferlinu.
Í raun afskrifar þetta flest af þeim rökum sem að komið frá Bankasýslunni og fjármálaráðherra. Ég sé ekki hvaða skilyrði hefði þurft að setja til að þetta myndi ekki gerast. Maður hefði haldið að það væri augljóst að þegar finna átti trausta fjárfesta fyrir Íslandsbanka að þá kæmi ekki til greina að selja til spákaupmanna,“ bætir Kristrún við.
Kristrún telur að enginn nefndarmanna í fjárlaganefnd hafi getað séð þetta spilast út svona.
„Ég held að við verðum að gera okkur grein fyrir því að þessar upplýsingar sem eru að koma upp á yfirborðið núna þetta eru bara ekki eðlilegir viðskiptahættir. Ég er ekki viss um að neinn aðili í fjárlaganefnd hefði getað teiknað upp þessa sviðsmynd til að girða fyrir hana.“
Þá segir hún málið grafalvarlegt.
„Þetta er grafalvarlegt mál ef að þessar upplýsingar eru eins og fram hefur komið. Það er í raun verið að fara mjög illa með almenningseign, það er verið að gefa söluráðgjöf frítt spil til að hagnast á þóknunum og taka fjármálasnúning á ríkirræði.“
Kristrún telur ekki síst mikilvægt að málið verði tekið föstum tökum þar sem erlendir fjárfestar gætu fengið ranghugmyndir um viðskiptahætti hérlendis.
„Þetta er ekki sú ásýnd sem að við viljum hafa út á við. Þarna voru erlendir aðilar sem komu nú í annað skiptið að ríkiseign og seldu sig út með gróða. Þetta eru mjög röng og slæm skilaboð til að senda til erlendra fjárfesta um viðskiptahætti hér á landi. Það því mikilvægt að þetta mál verði tekið föstum tökum.“