Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar - stéttarfélags, mótmælir því sem hún kallar órökstuddar yfirlýsingar forseta ASÍ um ákvarðanir stjórnar Eflingar varðandi skipulagsmál á skrifstofum félagsins.
Ákvörðun stjórnar Eflingar um breytingar sem nú standa yfir er tekin á skýrum og málefnalegum grunni, segir í tilkynningu frá Baráttulistanum, sem Sólveig Anna Jónsdóttir leiddi. Sólveig tók við sem formaður Eflingar á ný á aðalfundi um helgina.
Greint var frá því í gærkvöldi að öllu starfsfólki Eflingar yrði sagt upp störfum og að tillaga þess efnis hafi verið samþykkt með átta manna meirihluta B-listans en hafi verið harðlega gagnrýnd af fulltrúum minnihlutans í stjórn Eflingar.
Í tilkynningu frá Baráttulistanum segir að breytingar innan Eflingar séu hugsaðar til að innleiða samræmi, jafnrétti og gagnsæi í launakjörum starfsfólks, innleiða eðlilegt bil milli hæstu og lægstu launa á skrifstofunum, og gera aðrar löngu tímabærar og nauðsynlegar breytingar á skipulagi.
„Forseti Alþýðusambandsins hefur ekki haft fyrir því að leita upplýsinga eða skýringa frá formanni eða stjórn Eflingar, en hikar þó ekki við að fordæma opinberlega þeirra störf í þágu félagsfólks í Eflingu. Það eru sorgleg nýmæli að forseti Alþýðusambandsins ráðist á verka- og láglaunafólk í stjórn eins af aðildarfélögum ASÍ með þessum hætti,“ segir í yfirlýsingunni.
Bent er á að Baráttulistinn hafi í kosningabaráttu sinni lýst því yfir að nauðsynlegar breytingar yrðu gerðar á rekstri skrifstofu Eflingar og við það loforð verði staðið.
„Við það loforð verður staðið. Í því ferli sem nú stendur yfir er lögum og vinnubrögðum sem við eiga fylgt í einu og öllu. Óhjákvæmilegt er að segja upp öllum ráðningarsamningum, en allt starfsfólk verður hvatt til að sækja um auglýst störf að nýju,“ segir í tilkynningunni þar sem enn fremur segir að formaður Eflingar harmi að aðilar hafi rofið trúnað, lekið gögnum í fjölmiðla og tjáð sig þar með óvarlegum hætti áður en samráðsferli lauk.