Ferðaþjónustan Southcoast Adventure á Hvolsvelli gerir nú út ferðir með rafmagnsbíl upp á topp Eyjafjallajökuls þar sem heitir Goðasteinn. Bíllinn, sem er af gerðinni Jeep Wrangler og var tekinn í notkun í desember sl, þykir henta vel í verkefnið. Hefur mikinn kraft og öflugt tog, eins og þarf í bröttum brekkum.
Alls er bíllinn með 375 hestafla kraft. Þar af er um fjórðungur fenginn með rafmagni.
Allar ferðir eru ævintýri
„Með tilliti til umhverfissjónarmiða, sem vega æ þyngra í ferðaþjónustu, er frábært að vera á bíl sem að hluta til gengur fyrir endurnýjanlegri orku. Tvímælalaust er þetta framtíðin, segir Narfi Hrafn. Hann lýsir öllum ferðum á Eyjafjallajökul sem ævintýri, því umhverfið sé stórbrotið og útsýnið á toppunum stórkostlegt.
Í jeppaferðum á jökul er lagt á brattann skammt innan við Seljalandsfoss. Þar er farið um Hamragarðaheiði. Þegar henni sleppi um svonefnda Tröllagilsmýri, og svo áfram og hærra. Allt gekk vel í leiðangri Narfa og blaðamanns á jökullinn í síðustu viku, enda var bíllin góður, ökumaðurinn traustur og staðkunnugur – og veðrið eins og best mátti verða.
Jökullinn er þekkt vörumerki
Eyjafjallajökull varð þekktur um veröld víða í eldgosinu fyrir tólf árum. Aska í háloftum varð þá til þess að stöðva flugumferð víða um Evrópu sem raskaði ferðum milljóna manna. Með aðgerðum á markaði tókst þó að nýta þá athygli til sóknar, svo Ísland varð ferðamannaland.
„Jökullinn er afar sterkt vörumerki,“ segir Narfi Hrafn Þorbergsson.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.