Ná varla lágmarksþjónustu á skrifstofu Eflingar

Fáir mættu til vinnu í morgun á skrifstofu Eflingar.
Fáir mættu til vinnu í morgun á skrifstofu Eflingar. mbl.is

Aðeins voru tæplega tíu starfsmenn mættir til starfa á skrifstofu Eflingar í morgun, en áður en til hópuppsagnar kom í síðustu viku var 41 starfsmaður enn við störf á skrifstofunni. Þar fyrir utan voru nokkrir skráðir í veikindaleyfi eða á uppsagnafresti. Þeir sem ekki mættu til vinnu í morgun tilkynntu um veikindi. Þetta staðfestir Gabríel Benjamin, kjarmálafulltrúi hjá Eflingu og trúnaðarmaður starfsfólks, í samtali við mbl.is.

Hann segir ljóst að þjónusta við félagsmenn Eflingar verði skert á meðan svo fáir séu við vinnu. Nú þegar hafi orðið skerðing á þjónustunni. Gerð er krafa um að starfsfólkið vinni að minnsta kosti tveggja mánaða uppsagnafrest, en það kom hins vegar fram í kjölfar hópuppsagnarinnar í síðustu viku að margir treystu sér ekki til að mæta til vinnu.

„Við náum kannski lágmarksþjónustu, en ég er ekki viss um það. Staðan er þannig að það er verið að reyna að láta eitthvað ganga, en það er augljóst að þetta verður mjög erfitt fyrir félagsmenn okkar. Það verður erfitt að mæta þörfum þeirra, segir Gabríel.

Erfitt að segja til um hvort fleiri mæti næstu daga

Einhverjir hafi reynt að stökkva inn í aðrar stöður en þeir eru ráðnir í til að veita ákveðna þjónustu, en það sé hins vegar ekki æskilegt. „Það er ekki hægt óska eftir því að fólk sinni öðrum störfum heldur en starfslýsing þeirra gerir ráð fyrir, á meðan það er á uppsagnarfresti. Fólk má auðvitað bjóðast til þess, en það er ekki langtímalausn næstu þrjá mánuði.“

Hann segir erfitt að segja til um það hvort starfsfólk á skrifstofunni muni snúa aftur til vinnu á næstu dögum. „Þeir sem eru frá núna eru frá vegna veikinda. Ég er ekki læknir og veit ekki hvort fólk nái bata. Ég geri ráð fyrir að einhverjir snúi aftur ef þeir fá viðeigandi þjónustu.“

Starfsfólk geti ekki fengið fulla þjónustu hjá félaginu

Gabríel segir athyglisvert það sem kemur fram inn á vef Eflingar þar sem nokkrum spurningum er svarað um skipulagsbreytingarnar, að félagsmenn Eflingar á skrifstofunni muni fá fulla þjónustu hjá stéttarfélaginu. Hann sér ekki hvernig það á að ganga. „Það er ekki hægt. Ef við lítum til þess að fólkið þurfi lögfræðiþjónustu, ætlar stéttarfélagið þá að fara í mál við sjálft sig?“

Stærstur hluti starfsfólksins á skrifstofunni er félagsfólk í Eflingu, en aðrir eru í VR og er Gabriel trúnaðarmaður þess starfsfólks. Hann segir VR hafa reynst starfsfólkinu vel síðustu daga og veitt framúrskarandi þjónustu. „Starfsfólk VR hefur sýnt okkur ótrúlega góða þjónustu og við höfum meðal annars fengið leyfi til þess að nota lögfræðinga hjá VR ef til þess kemur, óháð félagsaðild. Allt starfsfólkið hjá Eflingu fær að leita til VR með öll sín mál.“

Ekki allir fengið uppsagnarbréf í hendurnar

Aðspurður hvort Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sé mætt á skrifstofuna segist hann ekki hafa séð hana. Hún hafi ekki sýnt neinn áhuga á að hitta starfsfólkið á skrifstofunni. Þá tekur Gabríel fram að ekki hafi allir fengið uppsagnarbréf í hendur enn þá, en þó hefur komið fram að öllum ráðningarsamningum hafi verið sagt upp.

Sólveig hefur sagt að með þeim breytingum sem standi til að gera á skrifstofunni megi draga úr launakostnaði um allt að 120 milljónir króna á ári. Gabríel segist ekki sjá hvernig þetta eigi geta gengið upp þar sem ljóst sé að útvista eigi ýmissi þjónustu.

Auglýst hefur verið eftir fólki í ýmis störf á skrifstofu Eflingar, allt frá framkvæmdastjóra til þjónustufulltrúa, en ljóst er að einhver störf verða lögð niður. Gabríel bendir til dæmis á að ekki sé auglýst eftir bókara. „Það er alveg bókað að starfsemi félagsins getur ekki gengið nema það sé bókari við störf. Ef starfið er ekki auglýst þá hlýtur að vera stefnt að því að útvista þessari þjónustu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert