„Framkvæmdin á sölunni með ólíkindum“

Mótmæli voru haldin á Austurvelli í dag kl. 14.00 þar sem mótmælt var nýlegri sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. „Það var mikil stemmning í bænum og örugglega hátt í þrjú þúsund manns á Austurvelli. Reiðin er að breiðast út í samfélaginu og fólk er bara búið að fá nóg,“ sagði Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir einn ræðumanna í samtali við mbl.is.

Viðburðurinn var auglýstur á Facebook undirnafninu „Burt með Bjarna og spillinguna burt.“  Eftir upphitun frá Páli Óskari voru þrír ræðumenn, þau Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Theodóra Sigurlaug Þorsteinsdóttir og Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar. Einnig var brúðuleikhús og Anton Helgi Jónsson flutti frumsamið ljóð áður en rapphljómsveitin Rottweiler hundarnir slógu lokatónana.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir.
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir. mbl.is/Hari

Ólína sagði greinilegt að mikill hugur sé í fólki. „Það er krafist þess að Bjarni Benediktsson segi af sér, enda var framkvæmdin á sölunni með ólíkindum. Að faðir, frændur og vinir fengju að kaupa almannaeign er ekki í lagi. Síðan kom fram hörð gagnrýni á að gamlir hrunverjar hafi fengið aðgang að þessari almenningseign á lækkuðu verði. Það er kominn tími til að stjórnmálamenn í landinu axli einhverja ábyrgð og það gera þeir ekki með því að leggja niður bankasýslu ríkisins.“ 

Ólína segir að brúðuleikþáttur hafi vakið mikla lukku á mótmælunum. „Það var mjög smellin framsetning á ríkisstjórnarfundi þar sem verið er að taka rangar ákvarðanir á röngum forsendum."

Hún segir að einnig hafi komið ákall til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um að sjá til þess að fjármálaráðherra segi af sér. 

Hér fyrir neðan er myndband frá mótmælunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert