Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í dag á Alþingi að velheppnuð sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka spili stórt hlutverk í nýlegri fjármálaáætlun.
Bjarni flutti munnlega skýrslu um söluna á þinginu í dag en þingið kemur saman í fyrsta sinn síðan 8. apríl.
Hann sagði eðlilegt að ræða söluferlið allt og fara yfir staðreyndir málsins sem hann svo gerði.
Bjarni minntist sérstaklega á verðið á hlutabréfunum sem hefur verið harðlega gagnrýnt en hluturinn seldist á 117 krónur.
„Rétt fyrir þetta útboð þá hafði verið greiddur nokkuð hár arður úr Íslandsbanka sem hefði að minnsta kosti átt að hafa áhrif, þar sem að eignir bankans rýrnuðu við útgreiðslu arðsins,“ sagði hann og bætti við að viðmiðunar dagurinn sé 18. mars.
„Þannig að þegar er borið saman útboðsgengið við eldra gengið þá verður að taka tillit til þess, þar munar rétt um 5,95 í gengi.“
Bjarni sagði því að til samanburðar við það gengi sem var á markaði fyrir arðgreiðsluna þá hafi bankinn verðir seldur á því sem að myndi jafngilda 122,95.
Hann nefndi ýmsar tillögur hafi verið ræddar um gengið og upphæðin sem hafi síðan verið ákveðin hafi verið mjög sambærileg umræðu síðustu vikna og mánaða.
„Þegar við horfum til þess magns sem var verið að selja þennan dag þá jafngildir það um 300 daga viðskiptum með bankann og að sjálfsögðu var fyrirséð að það myndi hafa áhrif á samanburð við síðasta skráða markaðsgengi en það frávik var í lágmarki miðað við það sem að hafði verið rætt í aðdraganda og það sem við þekkjum annars staðar frá.“
Bjarni sagði því að undirbúningur málsins hafi verið í samræmi við forskrift í lögum um Bankasýslu ríkisin og lögum um sölu eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.
Þá nefndi Bjarni þrjú atriði sem hafa helst verið útistandandi deiluefni varðandi söluna.
Er kemur að þátttöku starfsfólks söluráðgjafa Bankasýslunnar í útboðinu sagði Bjarni skýrt að slík þátttaka hljómi ekki vel.
Hann sagðist gera ráð fyrir að Seðlabankinn skoði málið ofan í kjölin.
„Ég ætla ekki að fullyrða neitt um hvernig þau mál voru,“ sagði Bjarni og bætti við að ef hagsmunaárekstrar voru til staðar þá er það slæmt og ekki eftir neinni forskrift.
Bjarni nefndi einnig umræðu um hugsanlega þátttöku aðila sem ekki hafi þótt hæfir í útboðinu.
„Að sjálfsögðu var það grundvallarkrafa, upplegg Bankasýslunnar, fyrirmæli fjármálaráðherra, að eingöngu þeir sem uppfylltu skilyrði gætu tekið þátt. Þetta er augljóst. Það þarf enginn að halda að hann geti komist í ágreining við mig um þetta atriði“
Í þriðja lagi nefndi hann upplýsingagjöf og gagnsæi.
„Þrátt fyrir ítarlegar kynningar fyrir þingnefndum og birtingu greinagerðar um fyrirhugaða sölu og aðferð, þá hefði að mínu áliti mátt kynna ferlið og fyrirætlanir um sölu enn betur. Bæði opinberlega og fyrir almenningi. “
Þá sagði Bjarni velta fyrir sér hvort þingnefndir hefðu átt að gefa sér lengri tíma.
Hann sagði að umræðan undanfarna daga hafa verið á villigötum.
„Talvert miklu moldviðri hefur verið valdið með yfirlýsingum sem snúast oft um lítið annað en aukaatriði í þessu öllu saman.“
Þá sagði Bjarni að Ríkisendurskoðun muni fara faglega yfir málið.