Formaður fjárlaganefndar segir „mjög dapurt“ að þurfa að fresta fundi fjárlaganefndar og bankasýslu ríkisins vegna sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýslan bað um að fundinum yrði frestað.
„Mér finnst í raun bara mjög dapurt að þurfa að fresta þessum fundi þar sem það hefur legið fyrir síðan snemma í apríl að halda eigi þennan fund. Ég er frekar ósátt með það,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Vinstri grænna.
Hvers vegna var fundinum frestað?
„Í raun var bara óskað eftir því af hálfu bankasýslunnar að fá að fresta fundi þar sem fyrir lægju ekki öll gögn. Þeir vildu ekki koma á fund nema með því að hafa með sér öll gögn og svör við öllum spurningum sem nefndin hafði borið á borð fyrir þá,“ segir Bjarkey.
Hún tekur undir ummæli Bryndísar Haraldsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri „eiginlega óásættanlegt með öllu“ að bankasýslan hafi óskað eftir frestun.
Bjarkey gerir ráð fyrir því að fundurinn fari fram á miðvikudag og verður hann þá opinn. Í dag verður haldinn hefðbundinn lokaður fundur um fjármálaáætlun.
Salan hefur hlotið verulega gagnrýni og ákvað ríkisstjórnin að leggja bankasýsluna niður í kjölfarið.
Fjárlaganefnd hefur óskað eftir svörum við spurningum í 19 töluliðum en séu stafliðir taldir með telja þær á fimmta tug. Er þar spurt meðal annars um hvernig hafi verið staðið að vali söluaðila á hlutabréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka, hvers vegna innlendir söluaðilar hafi verið fimm talsins og hvernig samið hafi verið um þóknun til þeirra aðila.
Jón Gunnar Jónsson forstjóri bankasýslunnar gaf ekki kost á viðtali þegar Morgunblaðið leitaði eftir því í gærkvöldi.