Kostnaður við brottvísanir fólks úr landi á síðustu þremur árum hleypur á hundruðum milljóna íslenskra króna. Var meðalkostnaður við brottflutning hvers útlendings í fylgd á síðasta ári tæpar 1,9 milljónir. Á síðustu þremur árum hefur stoðdeild ríkislögreglustjóra fylgt 457 erlendum ríkisborgurum sem fengið hafa endanlega synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd úr landi samkvæmt ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun eða frávísun.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Arndísar Önnur Kristínardóttur Gunnarsdóttur, þingkonu Pírata.
Heildarkostnaður við brottvísanir (og fleira) á síðustu þremur árum nemur tæpum 650 milljónum íslenskra króna. Umræddur kostnaður er samanlagður heildarkostnaður stoðdeildar ríkislögreglustjóra fyrir árin þrjú (stoðdeildin sér um framkvæmdir á ákvörðunum Útlendingastofnunar frá Íslandi), ferðakostnaður og flugvélaleiga að frádreginni endurgreiðslu frá evrópsku landamæraeftirlitsstofnuninni Frontex.
Tekið skal fram að hvað varðar heildarkostnað stoðdeildar á ári þá er launakostnaður starfsmanna ekki aðgreindur eftir verkefnum en stoðdeildin sinnir einnig flutningum í fylgd vegna framsals sakamanna, flutningi fanga og framkvæmd frávísana skv. ákvörðunum sem lögregla tekur.
„Síðastliðin tvö ár, sökum COVID-19-heimsfaraldursins, hefur framkvæmd flutninga í fylgd dregist saman. Hluti lögreglumanna stoðdeildar hafa á tímabilinu verið færðir tímabundið í ýmis önnur verkefni, svo sem smitrakningarteymi lögreglunnar. Launakostnaður fyrir árin 2020 og 2021 var því að hluta endurgreiddur af öðrum fjárlagaliðum.“
Upphæð þeirrar endurgreiðslu er ekki tilgreind í svari Jóns og því er ekki hægt að skera úr það með algjörri vissu hver beinn kostnaður við brottvísanirnar var. Þó er ljóst að hann hljóp á hundruðum milljóna eins og áður hefur verið sagt.
Arndís spurði m.a. um það hver væri lægsti, hæsti og áætlaður meðalkostnaður ríkisins við flutning einstaklings úr landi gegn vilja viðkomandi. Í svari dómsmálaráðherra kemur fram að kostnaðurinn sé mjög breytilegur og að fjölmargir þættir hafi áhrif.
„Þannig getur til dæmis fluggjald verið misjafnt eftir áfangastað, ferðaleið og tegund flugs, þ.e. hvort um áætlunarflug sé að ræða eða leigu á flugvél. Misjafnt er hversu margir lögreglumenn eru í hverri ferð og fer það eftir fjölda þeirra útlendinga sem fylgt er úr landi hverju sinni og hættumati sem framkvæmt er fyrir hverja ferð. Eftir atvikum koma aðrir aðilar að flutningi, svo sem túlkur, læknir eða aðrir sérfræðingar eða eftirlitsaðilar. Þá eru fjárhæðir dagpeninga misjafnar eftir áfangastað og lengd ferðar,“ segir í svarinu.
Aftur á móti má draga ályktun um kostnað hvers flutnings út frá þeim gögnum sem liggja fyrir. Ályktar dómsmálaráðherra því að árið 2019 hafi meðalkostnaður á hvern einstakling verið 909.966 krónur, árið 2020 hafi sá kostnaður hækkað í 2.242.096 og lækkað aftur í 1.875.574 í fyrra.