„Erlendis þá hefði þetta aldrei tíðkast“

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri …
Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri stofnunarinnar, á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þátttaka starfsmanna söluráðgjafa í útboði eins og var með hlutabréf Íslandsbanka hefði aldrei tíðkast erlendis og væri litin hornauga. Hún var hins vegar í samræmi við reglur Íslandsbanka og hafði regluvörður yfirfarið þau viðskipti. Þetta sagði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, á opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun.

Jón og Lárus Blöndal, stjórnarformaður stofnunarinnar, sátu fyrir svörum í ljósi gagnrýni sem hefur komið fram um framkvæmd útboðsins, en þá var seldur 22,5% hlutur í bankanum fyrir um 52 milljarða. Hefur meðal annars verið gagnrýnt að fjöldi minni tilboða hafi verið í útboðinu þótta að krafa hafi verið gerð um að einungis fagfjárfestar væru meðal þátttakenda. Þá var einnig nokkuð spurt um þátttöku föður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á fundinum sem og þátttöku starfsmanna Íslandsbanka, sem var ráðgjafi við útboðið.

„Ráðherra hefur valdið og við erum framkvæmdaaðilinn“

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði þá Jón og Lárus á fundinum um hvernig heimild bankasýslunnar fyrir sölunni væri tilkomin þar sem fjármálaráðherra sækti sína heimild til fjárlaga og að hann ætti að taka ákvörðun um hvort tilboð væru samþykkt eða hafnað og skrifaði undir samninga fyrir hönd ríkisins. Vísaði hún til þess að þétt hefði verið fundað milli bankasýslunnar bæði fyrir útboðið og á meðan á því stóð og spurði hún hvort þeir teldu að fjármálaráðherra hefði framselt vald sitt í ferlinu til stofnunarinnar eða hvort hún hefði tekið sér þetta vald varðandi að samþykkja tilboð.

Sagði Jón að það væri Bankasýslunnar að sjá um frágang sölunnar, en að ákvörðunin sé alltaf ráðherrans. Bætti hann við að bókstaflega mætti segja að lagagreinar sem nái til sölu ríkiseigna geri ráð fyrir að selt sé til eins aðila en ekki í útboði þar sem þarf að taka ákvörðun um úthlutun. Sagði hann að útboðið hefði verið í samræmi við athugasemdir í frumvarpinu og athugasemdir eftir frumútboðið í fyrra. Sagði hann að Bankasýslan hefði óskað eftir heimild ráðherra til að selja ákveðinn hlut og heimildar til að ráðast í úthlutunina.

Þorbjörg sagðist þá hafa spurt þessarar spurningar vegna umræðu um armslengdarsjónarmið, því svo virtist stundum vera sem ríkisstjórnin hefði hvergi komið nærri. Spurði hún því hvort þeir litu svo á að ráðherra hafi framselt þeim valdið eða þeir tekið það með einhverjum hætti. „Við gerðum tillögu til ráðherra. En ráðherra hefur valdið og við erum framkvæmdaaðilinn,“ sagði Lárus.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði þá Lárus og Jón …
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, spurði þá Lárus og Jón m.a. um hæfi, hagsmunaárekstra og gegnsæi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Væri litið hornauga erlendis

Spurði hún næst um gegnsæi og hæfi og hvort þeir hefðu vitað eitthvað um að faðir Bjarna hefði tekið þátt í útboðinu. Einnig hvort þeir teldu að stofnuninni hefði borið að upplýsa Bjarna um það, í ljósi þess að samkvæmt stjórnsýslulögum sé hann settur í þá stöðu að taka afstöðu til þess hvort beri að samþykkja eða hafna samningi við aðila sem er honum tengdur. Sögðust þeir báðir ekki hafa vitað af því að faðir Bjarna væri meðal þátttakenda. „Við vissum ekki af því fyrr en listinn var birtur. Þetta er hlutafélag,“ sagði Lárus.

Jón svaraði því jafnframt til með hagsmunaárekstra að hann hefði spurt um þátttöku starfsmanna Íslandsbanka. „Við vorum þarna við úthlutunina og ég spurði Íslandsbanka, sá að það var nafn eins starfsmanns þarna og spurði hvað er þessi maður að gera á þessum lista. Hann sagði að regluvörður væri búinn að samþykkja. Og ég sagði bara okei, ég get ekkert gert í því. En erlendis þá hefði þetta aldrei tíðkast. Að reglur væru með þeim hætti að þátttaka starfsmanna í svona útboðum af hálfu söluráðgjafa hún væri litin hornauga. Það eru mín persónulegu sjónarmið, en þetta var allt gert samkvæmt reglum bankans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert