Þórólfur smitaðist af kórónuveirunni

Þórólfur Guðnason lenti í veirunni.
Þórólfur Guðnason lenti í veirunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir smitaðist af kórónuveirunni nýverið. Ætti svo sem engan að undra enda hefur tæplega helmingur íslensku þjóðarinnar greinst smitaður af veirunni og er líklegt að hlutfallið sé í raun enn hærra.

Vísir greindi fyrst frá. 

Í samtali við mbl.is segir Þórólfur að veiran hafi leikið hann grátt.

„Í mínu tilviki var þetta ekki bara venjuleg kvefpest heldur miklu meira en það,“ segir Þórólfur en bætir því við að það sé misjafnt hvernig veiran leggist á fólk.

„Það er breytilegt eftir einstaklingum, sumir fá þetta bara vægt og aðrir kannski harðar. Svo eru aðrir sem fá þetta mjög alvarlega og þurfa að leggjast inn, það var ekki það mikið hjá mér.“

Gera faraldurinn upp

Faraldurinn hefur verið á verulegri niðurleið undanfarið. Spurður hvort álagið á hann og hans teymi minnki í takt við það segir Þórólfur:

„Það taka bara önnur verkefni við. Við þurfum gera þennan faraldur upp. Við erum að vinna að því með almannavörnum og svo eru önnur verkefni sem hafa setið á hakanum núna í tvö ár sem við þurfum að einhenda okkur í.“

Almannavarnir og embætti landlæknis hafa að reglu að framkvæma uppgjör eins og það sem Þórólfur nefnir í tilvikum sem þessum. 

„Það er hluti af öllum viðbragðsáætlunum að gera það; fara yfir hvað gekk vel, hvað illa, að hverju þarf að huga vegna þess að það þarf að endurskoða viðbragðsáætlanir.“

Fylgjast með sjúkdómum

Spurður um önnur helstu verkefni segir Þórólfur:

„Við erum að fylgjast með ákveðnum sjúkdómum, það eru tugir smitsjúkdóma sem við þurfum að fylgjast með og kanna og bregðast við eins og við höfum gert undanfarin ár. Það eru kynsjúkdómar, öndunarfærasýkingar, niðurgangspestir, alvarlegar sýkingar o.s.frv. þannig að það er af nógu að taka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert