Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir ekki mörg friðvænleg merki á lofti hvað varðar stríð Rússa í Úkraínu. Hún segir þó að það kunni að breytast og að hún voni að Rússar „láti sem fyrst af stríðsrekstri sínum og yfirgangi.“
Þetta kemur fram í skriflegu svari Þórdísar við fyrirspurn mbl.is.
Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í vikunni að hættan á þriðju heimsstyrjöld væri alvarleg. Þá gagnrýndi hann nálgun úkraínskra stjórnvalda á friðarviðræður. Spurð um það hvað henni finnist um þessi ummæli skrifar Þórdís:
„Innrás Rússa í Úkraínu er algjörlega ólögleg og á sér ekki réttlætingu. Yfirlýsingar um þriðju heimsstyrjöldina eru dapurlegar en það má ekki gleymast að um er að ræða stríð sem Rússar völdu að hefja en Úkraína hefur ekki aðra valkosti en að verjast, og hefur gert það af miklum þrótti. Ásakanir um [að] skorturinn á friðarvilja liggi hjá Úkraínumönnum eru í mínum huga fremur fáránlegar.“