Flokkur fólksins mun funda um stöðu Tómasar A. Tómassonar þingmanns flokksins og verður ákvörðun um hvernig brugðist verður við tekin í framhaldinu af því. Þetta segir Guðmundur Ingi Kristinsson, þingflokksformaður flokksins.
Tómas, eða Tommi á Búllunni eins og hann er betur þekktur, birti í dag skjáskot á samfélagsmiðlum af samskiptum sínum við ónafngreindan einstakling. Tekur hann fram að skjáskotið hafi verið á leið í fjölmiðla.
Þar má sjá skilaboð sem Tommi sendi frá Bangkok í Taílandi þar sem hann talar um að hann hafi stundað kynlíf með ungri konu og fengið þjónustu frá nuddkonu.
„Kæru twitter vinir þetta skjáskot er að fara að birtast i fjölmiðlum vil taka fram að ég var ólofaður og ógiftur þegar þetta átti sér stað en svona er lifið engin veit sína æfi fyrr en öll er,“ skrifaði Tómas með skilaboðunum.
Í viðtali við Vísi neitaði Tómas því jafnframt að hafa greitt fyrir kynlíf.
Vert er að taka fram að Tómas hefur þegar eytt færslunum.
„Við erum að skoða þetta og munum funda um þetta og taka einhverja ákvörðun í framhaldi af því,“ segir Guðmundur Ingi í samtali við mbl.is.
Hann segir tímasetningu fundar ekki liggja fyrir ennþá enda hafi hann einungis frétt af málinu fyrir um klukkustund þegar hann var nýstiginn úr þingsal. Hann hefur aðeins náð að ræða þetta lítillega við Tómas sjálfan.
„Þetta er því miður sorglegt mál og skeði áður en hann kom inn í flokkinn. Þetta er síðan 2014 en eins og ég segi þá er hann fullorðinn einstaklingur og ber auðvitað ábyrgð á sjálfum sér.“
Spurður hvort hann taki yfirlýsingu Tómasar trúanlega, þar sem hann neitar að hafa greitt fyrir kynlífið, segir Guðmundur Ingi að nauðsynlegt sé að fara ofan í saumana á þessu máli og fá á hreint hver staðan er.
Spurður hvort atvikið kalli hugsanlega á afsögn, segir Guðmundur Ingi málið ekki komið svo langt að hægt sé að taka afstöðu til þess.
„Svo er þetta líka spurning hvernig hann vill taka á þessu og hvernig við teljum að þurfi að taka á þessu. Þetta er bara það sem þarf að ræða.“
Ekki hefur náðst í Tómas sjálfan eða Ingu Sæland formann flokksins en hún er í veikindaleyfi.