Ekki nóg að biðjast afsökunar

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata.
Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Sigurð Inga Jóhannsson innviðaráðherra og formann Framsóknarflokksins á Alþingi hvort ummæli innviðaráðherra teldust til áreitni sem er bönnuð samkvæmt lögum um jafna meðferð óháð kynþætti.

Ég á ekki auðvelt með að grínast með þetta mál. Það hefur tekið þungt á mig, mína fjölskyldu og mína vini. Ég hef beðist afsökunar. Sú afsökunarbeiðni hefur verið meðtekin. Við vorum sammála um að ræða það ekki frekar og ég mun virða þá ósk,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, þegar hann var spurður um óviðeigandi ummæli hans um framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.

„Höfðu ummælin þau áhrif að virðingu framkvæmdastjórans hafi verið misboðið? Leiddu þau til niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna?“ spurði Arndís Anna.

Sigurður Ingi sagðist hafa beðist afsökunar á orðum sínum, sú afsökunarbeiðni hafi verið móttekin og aðilar sammála að ræða málið ekki frekar.

Borinn þungum sökum um eitthvað allt annað

Það er hins vegar þungbært og þungbærara en ég bjóst við, eftir að hafa verið svona lengi í stjórnmálum, að upplifa það dag eftir dag hér í þinginu í tiltekinn tíma af tilteknum stjórnmálamönnum og af einstökum fjölmiðlum að vera borinn þungum sökum um eitthvað allt annað,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann velti því upp hvort slík umræða væri ef til vill sprottin af því að sveitarstjórnarkosningar fara fram eftir rétt rúmar tvær vikur og samkvæmt skoðanakönnunum í borginni er hans flokkur á mikilli uppleið. 

„Orðum verða að fylgja aðgerðir“

Arndís Anna kom aftur í ræðustól og spurði ráðherra hvernig hann hygðist axla ábyrgð og endurbyggja traust.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það er ekki nóg að biðjast afsökunar, orðum verða að fylgja aðgerðir. Hvað ætlar ráðherra og hans flokkur að gera til að berjast gegn kynþáttafordómum í samfélaginu, uppræta þá, standa vörð um mannréttindi og velferð fólks af erlendum uppruna?“ spurði Arndís Anna.

Sigurður Ingi sagði að Framsóknarflokkurinn hefði fagnað öllum sem hingað komi og göfgi okkar samfélag. „Ég hef sagt það margoft í þessum stól og mun halda því áfram,“ sagði ráðherra að lokum á sama tíma og heyrðist í Arndísi Önnu úr sæti sínu: „Þú ætlar sem sagt ekki að gera neitt? Ekki neitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert