Rosio Berta Calvi Lozano var sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að hafa nýtt sér bága stöðu heilabilaðra systra á tíræðisaldri um árabil og haft af þeim tugmilljónir.
Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari í málinu staðfestir í samtali við mbl.is að Rosio hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm vegna umboðssvika og þarf hún að sæta upptöku á samtals tæplega 76 milljónir króna.
Samkvæmt ákæru er Rosio, sem er á sextugsaldri, talin hafa dregið af systrunum fé, tekið lausafjármuni þeirra ófrjálsri hendi, fengið systurnar til að útbúa erfðaskrá sem léti allar þeirra eigur renna til konunnar að frádreginni einni miljón króna við andlát þeirra og fleira.
Systurnar glíma báðar við heilabilun en eldri systirin hefur um árabil verið háð Rosio vegna versnandi heilsufars og trúnaðarsambands við hana.
Yngri systirin hefur dvalið á deild fyrir heilabilaða frá árinu 2006. Vegna heilabilunar sinnar hefur hún verið ófær um að taka ákvarðanir um fjármál sín um árabil og fékk ákærða umboð til að annast fjármál hennar árið 2012.
Systurnar áttu enga skylduerfingja og höfðu áður gert sameiginlega erfðaskrá sem kvað á um að allar eigur þeirra skyldu renna í sjóð fyrir unga listamenn.
Síðar hafi ný erfðaskrá verið gerð þar sem kom fram að sú langlífari myndi erfa hina, en að þeim báðum látnum skyldu allar eignir systranna renna til konunnar, að frátalinni einni milljón króna.
Rosio var í dag sakfelld í fjórum liðum ákærunnar en sýknuð í tveimur.
Hún var sakfelld fyrir umboðssvik vegna beggja systranna og snýr meginkostnaðurinn að skaðabótum í máli yngri systurinnar.
Hún var sýknuð í ákærulið um misbeitingu erfðaskrár, vegna sönnunarskorts, og gripdeilda af sömu ástæðu.