Sakfelld fyrir að hafa fé af heilabiluðum systrum

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þorsteinn Ásgrímsson

Rosio Berta Calvi Lozano var sakfelld í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að hafa nýtt sér bága stöðu heila­bilaðra systra á tíræðis­aldri um ára­bil og haft af þeim tug­millj­ón­ir.

Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari í málinu staðfestir í samtali við mbl.is að Rosio hlaut tveggja ára skilorðsbundinn fangelsisdóm vegna umboðssvika og þarf hún að sæta upptöku á samtals tæplega 76 milljónir króna.

Sam­kvæmt ákæru er Rosio, sem er á sextugsaldri, tal­in hafa dregið af systr­un­um fé, tekið lausa­fjár­muni þeirra ófrjálsri hendi, fengið syst­urn­ar til að út­búa erfðaskrá sem léti all­ar þeirra eig­ur renna til kon­unn­ar að frá­dreg­inni einni milj­ón króna við and­lát þeirra og fleira.

Allar eignir renna til Rosio

Syst­urn­ar glíma báðar við heila­bil­un en eldri syst­ir­in hef­ur um ára­bil verið háð Rosio vegna versn­andi heilsu­fars og trúnaðarsam­bands við hana.

Yngri syst­ir­in hef­ur dvalið á deild fyr­ir heila­bilaða frá ár­inu 2006. Vegna heila­bil­un­ar sinn­ar hef­ur hún verið ófær um að taka ákv­arðanir um fjár­mál sín um ára­bil og fékk ákærða umboð til að ann­ast fjár­mál henn­ar árið 2012.

Syst­urn­ar áttu enga skyldu­erf­ingja og höfðu áður gert sam­eig­in­lega erfðaskrá sem kvað á um að all­ar eig­ur þeirra skyldu renna í sjóð fyr­ir unga lista­menn.

Síðar hafi ný erfðaskrá verið gerð þar sem kom fram að sú lang­líf­ari myndi erfa hina, en að þeim báðum látn­um skyldu all­ar eign­ir systr­anna renna til kon­unn­ar, að frá­tal­inni einni millj­ón króna.

Sakfelld í fjórum liðum

Rosio var í dag sakfelld í fjórum liðum ákærunnar en sýknuð í tveimur.

Hún var sakfelld fyrir umboðssvik vegna beggja systranna og snýr meginkostnaðurinn að skaðabótum í máli yngri systurinnar.

Hún var sýknuð í ákærulið um misbeitingu erfðaskrár, vegna sönnunarskorts, og gripdeilda af sömu ástæðu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert