Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sakfellt karlmann fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum, dæmt hann í 24 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 283 milljónir í sekt.
Málið, sem var dómtekið 15. mars síðastliðinn, var höfðað með ákæru héraðssaksóknara 21. október í fyrra í tengslum við rekstur einkahlutafélags sem nú hefur verið afskráð. Maðurinn var stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins.
Ákæran var í tveimur liðum. Annars vegar sneri hún að því að maðurinn hafi ekki staðið skil á virðisaukaskatti samtals að fjárhæð 141.729.004 krónur. Hins vegar sneri hún að peningaþvætti með því að hafa aflað einkahlutafélaginu ávinnings af brotum, samtals að fjárhæð 141.729.004 krónur og nýtt ávinninginn í þágu rekstrarfélagins og eftir atvikum í eigin þágu.
Við fyrirtöku málsins lýsti sækjandi því yfir að í kjölfar dóms Hæstaréttar í öðru máli hafi ákæruvaldið ákveðið að falla frá ákæruliðnum er varðar peningaþvætti.
Í dómsorði héraðsdóms kemur fram að maðurinn sæti skilorðsbundnu fangelsi í 24 mánuði. Hann greiði jafnframt 283.458.008 króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í 360 daga.
Manninum var einnig gert að greiða málsvarnarþóknun skipað verjanda síns, Guðmundar Skúla Hartvigssonar upp á 1.422.900 krónur.