Seðlabankinn að senda sterk skilaboð

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl/Arnþór Birkisson

„Það var einsýnt að vextir yrðu hækkaðir í ljós aukinnar verðbólgu og viðsnúnings í efnahagslífinu,“ segir Hall­dór Benja­mín Þor­bergs­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka at­vinnu­lífs­ins. Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hef­ur ákveðið að hækka vexti bank­ans um eina pró­sentu.

Halldór segir að ef horft sé á spá greiningaaðila hafi almennt verið gert ráð fyrir hækkun stýrivaxta um hálfa til eina prósentu. Því liggi fyrir að hækkunin hafi verið við efri mörk þess sem spáð var.

„Ef við reynum að lesa í yfirlýsingu peningastefnunefndar þá segir þar að líkur séu á áframhaldandi hækkunum á árinu, ef marka má þann harða tón. Eins er tilgreint að frekari hækkun muni ákvarðast af framvindu í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga sem framundan eru,“ segir Halldór.

Verðbólg­an mæld­ist 7,2% í apríl og er sú mesta síðan í maí 2010. Sam­kvæmt spá Seðlabank­ans eru horf­ur á að verðbólga auk­ist í rúm­lega 8% á þriðja fjórðungi þessa árs.

Í kynn­ingu Seðlabank­ans á vaxta­ákvörðun­inni og Pen­inga­mál­um sagði Þór­ar­inn G. Pét­urs­son, aðal­hag­fræðing­ur bank­ans og fram­kvæmda­stjóra sviðs hag­fræði og pen­inga­stefnu, verðbólgu víða vera minni en hér á landi en á mörg­um stöðum sé hún þó tölu­vert meiri. Nefndi hann Hol­land þar sem dæmi.

Verðbólga ekki hærri síðan 2010

Halldór bendir á að verðbólga hafi ekki verið hærri í tólf ár. Jafnvel þó húsnæðisliðurinn sé sá sem drífi verðbólgu áfram um þessar mundir sé ekki hægt að horfa framhjá því að verðbólga án húsnæðis standi í rúmlega fimm prósentustigum. Það sé vel yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

„Ólíkt því sem hefur verið undanfarin ár þá eru allir undirliði verðbólgu að leggjast á eitt til að mynda þrýsting til hækkunar verðlags. Að sama skapi er erlendur verðbólguþrýstingur enn mikill,“ segir Halldór.

Hann nefnir eina sviðsmynd sem er sú að styrking krónunnar samhliða bata í ferðaþjónustu geti dregið úr verðbólguþrýstingi. Slík staða gæti reynst erfið fyrir útflutningsgreinarnar sem þýði að jafnvel þó styrking krónunnar geti haft hemil á verðbólgu til skemmri tíma þá skerði það einnig samkeppnishæfni útflutningsgreina og myndi draga úr bata efnahagslífsins.

Halldór telur líkur á áframhaldandi verðbólguþrýstingi inn í sumarið. Þegar horft er til næstu missera, jafnvel inn í næsta vor, sé ljóst að framboðshlið húsnæðismarkaðar verði að glæðast. 

„Mér finnst blasa við að húsnæðismarkaður og niðurstöður kjarasamninga ásamt aðhaldsstigi ríkisfjármála munu hafa mest um það að segja hvernig innlend verðbólguþróun verður. Seðlabankinn er að senda mjög sterk skilaboð til aðila vinnumarkaðarins og ekki síður að senda sterk skilaboð til hins opinbera um að auka aðhaldið enn frekar að öðrum kosti muni Seðlabankinn verða nauðbeygður til að bregðast við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert