Hljóti að raska flugöryggi

Sigurður Ingi fyrir utan ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu.
Sigurður Ingi fyrir utan ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert samtal er í gangi á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar borgarinnar í grennd við Reykjavíkurflugvöll, að sögn innviðaráðherra. Hann segir skýrt að borginni sé ekki heimilt að byggja þar fyrr en ný, jafn góð eða betri, staðsetning finnist fyrir flugvöll.

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra ræddi við mbl.is eftir ríkisstjórnarfund í gær. Hann hefur áður gefið það út að borgin fái ekki meira af landi Reykjavíkurflugvallar fyrr en nýr flugvöllur lítur dagsins ljós. Við það er meirihlutinn í borginni ósáttur og lýsti Pawel Bartoszek, borg­ar­full­trúi Viðreisn­ar, ummælum Sigurðar Inga sem „stílbroti“ í samtali við mbl.is í vikunni.  

Ósammála túlkun Pawels

Árið 2013 samdi ríkið við borgina um kaup borgarinnar á flugvallarlandi ríkisins í Skerjafirði en árið 2019 undirrituðu Sigurður Ingi og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri aftur á móti samkomulag um að flugvöllurinn myndi ekki víkja á meðan verið væri að kanna aðra kosti. Pawel sagði þó að ekkert í samkomulaginu kveði á um að flugvöllurinn yrði í óbreyttri mynd.

„Það er ekki sá skiln­ing­ur sem ég legg í samn­ing­inn að það skuli ekki byggt neitt upp fyrr en árið 2025 enda hefði það komið fram í samn­ingn­um ef það hefði verið svo,“ sagði Pawel.

Spurður hvort nokkuð sé að finna í samkomulaginu um að flugvöllurinn verði í óbreyttri mynd segir Sigurður Ingi:

„Jú, það stendur, rekstrarlega og flugöryggislega voru aðilar sammála um að það verði í óbreyttri mynd þangað til nýr jafn góður eða betri flugvöllur finnist.“

„Ég ætlast bara til þess að menn virði samkomulag og …
„Ég ætlast bara til þess að menn virði samkomulag og þegar menn þurfa að færa girðingar og annað sem tryggja flugvallarsvæðið þá verður það ekki gert ef það raskar flugöryggi,“ segir Sigurður Ingi. mbl.is/Árni Sæberg

Í samkomulaginu, sem er gert um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni, segir m.a.: „Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur. [...] Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt þar til að nýr flugvöllur er tilbúinn í notkunar.“

Þessi orð virðast Pawel og Sigurður Ingi því ekki túlka með alveg sama hætti.

Nú er til skoðunar hvort vænlegt sé að byggja flugvöll …
Nú er til skoðunar hvort vænlegt sé að byggja flugvöll í Hvassahrauni. mbl.is/Árni Sæberg

Leitinni að nýjum stað ljúki eftir ár

Hvernig stendur leit að nýrri staðsetningu fyrir flugvöll?  

„Það er búið að vera sameiginlegt verkefni sem hefur aðeins seinkað en lýkur væntanlega næsta vor, eftir ár,“ segir Sigurður Ingi.

Hvernig ætlarðu að koma í veg fyrir að Reykjavíkurborg fari að byggja þarna upp?

„Ég ætlast bara til þess að menn virði samkomulag og þegar menn þurfa að færa girðingar og annað sem tryggja flugvallarsvæðið þá verður það ekki gert ef það raskar flugöryggi. Samkvæmt skýrslu [sem framkvæmd var af hollensku loft- og geimferðastofnuninni] var þar meðal annars bent á að mótvægisaðgerðir yrðu að loka flugvellinum á einstaka tímum. Reykjavíkurborg hefur bent á að það þyrfti að senda flugmenn á viðbótarnámskeið og aðra hluti. Allt þetta hlýtur að þýða röskun á rekstri eða flugöryggi og er þar af leiðandi ekki í samræmi við yfirlýsinguna frá 2019.“

Reykjavíkurborg virðist ekki sjá þetta með sama hætti, er eitthvað samtal í gangi?

„Nei, það er það ekki. Ekki í augnablikinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert