Kæra borgarstjóra fyrir lögbrot

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Lóa Guðjónsdóttir hefur fyrir hönd Loftkastalans ehf kært borgarstjórann í Reykjavík Dag B. Eggertsson til héraðssaksóknara en einnig embættismennina Björn Axelsson og Harra Ormarsson. 

Dagur er kærður fyrir brot á sveitastjórnarlögum, stjórnsýslulögum, hegningarlögum og upplýsingalögum „fyrir að stuðla ekki að framfylgd í samræmi við skipulagslög og skipulagsreglugerð." Kæran á hendur Degi var lögð fram 7. apríl á þessu ári. 

Björn er skipulagsfulltrúi á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Er hann kærður fyrir brot á hegningarlögum og „fyrir að framfylgja ekki skipulagslögum, skipulagsreglugerð og reglugerð um framkvæmdaleyfi.“

Harri er lögfræðingur á Umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Er hann kærður fyrir brot á hegningarlögum og „fyrir að framfylgja ekki skipulagslögum og skipulagsreglugerð.“ Kærurnar á hendur Birni og Harra voru lagðar fram 29. apríl á þessu ári. 

Borgin getur ekki afhent selda vöru

Kærurnar koma í framhaldi af langvarandi deilum forsvarsmanna Loftkastalans ehf við Reykjavíkurborg. Forsagan er rakin í meðfylgandi frétt mbl.is frá því í september í fyrra. Mál Loftkastalans eru til meðferðar hjá Innri endurskoðun og ráðgjöf hjá Reykjavíkurborg. 

Loft­kastal­inn keypti tvær fasteignir í Gufunesi og 1.800 fer­metra lóð af borg­inni ásamt bygg­ing­ar­rétti í janú­ar 2018. Eign­irn­ar til­heyrðu áður Áburðar­verk­smiðjunni. Þar ætl­ar Loft­kastal­inn ehf. m.a. að smíða leik­mynd­ir og end­ur­vinna frauðplast. Byggja á við hús­in svo þau rúmi starf­sem­ina. Ein af for­send­um kaup­anna var að gólf vænt­an­legr­ar viðbygg­ing­ar og lóðin væru sem mest á jafn­sléttu og gólfin í svipaðri hæð og er í gömlu hús­un­um. Það er til að auðvelt sé að renna t.d. stór­um leik­mynd­um á milli húsa.

Hilmar Páll Jóhannesson og Inga Lóa Guðjónsdóttir.
Hilmar Páll Jóhannesson og Inga Lóa Guðjónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eft­ir að kaup­in voru frá­geng­in var ákveðið að skipta lóðinni í tvennt og eig­end­um sagt að það hefði eng­in áhrif á neitt hjá þeim. Síðar kom í ljós að hækka átti baklóðina um 60 senti­metra. Inga Lóa og Hilmar Páll Jóhannesson hjá Loft­kastal­an­um gátu ekki sætt sig við þessa hækk­un og tjáðu mbl.is í fyrra að hún hafi aldrei verið nefnd í kynn­ing­um sem þau fengu.

Ímyndið ykkur að borginn hækki hjá ykkur lóð svo þið þyrftuð að ganga 3 tröppur inn og niður í íbúð ykkar sem áður var á jarðhæð,“ skrifaði Hilmar Páll meðal annars í aðsendri grein á dögunum. 

Loftkastalinn hefur bent á þetta frá upphafi en meirihluti borgarstjórnar kann ekki að taka á móti ábendingum og móðgast og fer í vörn. Nú er svo komið að Reykjavíkurborg getur aldrei afhent þá vöru sem Loftkastalanum var seld nema að grafa upp og færa allar lagnir neðar og gera götu upp á nýtt. Allt út frá því að ekki var hlustað á ábendingar,“ skrifaði hann einnig. 

Stór mistök gerð að mati borgarfulltrúa

Eigendur Loftkastalans ehf funduðu síðasta mánudag með fulltrúum frá borginni. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, átti frumkvæði að fundinum en hún var eini kjörni fulltrúinn sem sat fundinn. Ásamt henni, Ingu og Hilmari sátu fundinn embættismenn frá Reykjavíkurborg. Tveir lögfræðingar og innri endurskoðandi.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þar kom fram að Kolbrún hefði lagt fram fyrirspurnir hjá skipulags-og samgönguráði borgarinnar sem og borgarráði en ekki fengið svör. Á fundinum bókaði borgarfulltrúinn að Reykjavíkurborg hafi gert stór mistök. 

„Gerð hafa verið stór mistök. Einkavegur var gerður fyrir 1 aðila sem er nú staðfest með gögnum að hafi ruglað alla hæðarsetningu í Gufunesi. Gögnum hefur verið haldið frá aðstandendum og reynt að þagga málið í þrjú ár. Ekki hefur einu sinni verið fylgt lögbundnu samráðsferli. Svo virðist sem Reykjavíkurborg hafi ekki útfært í deiliskipulagi það sem þó ber að gera skv. skipulagsreglugerð, afstöðu gatna og jarðvegs við gólfhæð 1. hæðar húsa, hæð landslags á lóðum. Þetta er ákveðið og gert án vitundar og athugasemda- og ábendingarmöguleika almennings eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst. Haldinn var loks fundur 25. apríl þar sem boðið var lækkun á götu og seinkun á gjalddögum. Þetta er slakt tilboð eftir allt sem á undan er gengið. Tafir hafa verið miklar og skemmdir á starfssemi í rúm 3. ár. Eftir því sem næst er komist er búið að framkvæma alla gatnagerð þarna á rangan hátt og með því mögulega brjóta á aðstandendum Loftkastalans stjórnsýslulagabrot, eignarréttarbrot og hegningarlagabrot. Af hverju var ekki fenginn óháður aðili til að mæla? Fulltrúi Flokks fólksins ítrekar að lenda þarf þessu máli og það fyrir kosningar. Málinu hefur verið vísað til innri endurskoðunar sem hefur nú hlutverk „umboðsmanns borgarbúa.““

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi.
Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi. mbl.is/Hallur Már

Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður skipulags- og samgönguráðs, sagði í samtali við mbl.is í september að borgaryfirvöld litu svo á að ekki væri þörf á frekari aðgerðum í málinu af þeirra hálfu. Niðurstaða úrskurðarnefndar hafi ekki verið sú að borgin hafi haft rangt við í málinu.

Eyþór Arnalds, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagðist þá hins vegar ekki sjá annað á gögnum málsins en að borgin hafi gert mistök. Grund­vall­ar­atriði væri að lóð sem fólk keypti væri í sam­ræmi við for­send­ur kaup­anna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert