Þörf er fyrir sérstakar sjúkraþyrlur

Airbus H145. Þyrlur af þessari tegund eru víða notaðar til …
Airbus H145. Þyrlur af þessari tegund eru víða notaðar til sjúkraflutninga. Þyrlurnar eru sérstaklega útbúnar til að veita sjúklingum bráðaaðstoð. AFP/Juan Barreto

Vel staðsettar sjúkraþyrlur myndu valda byltingu í heilbrigðisþjónustu um allt land að mati Sveins Hjalta Guðmundssonar, þjálfunarflugstjóra hjá Air Atlanta Icelandic og fyrrverandi flugstjóra sjúkraflugvélar. Hann bendir á að í Reykjavík sé stærsta sjúkrahúsið og mesta getan til að bregðast við bráðum tilfellum og vandasömum. Þjónusta spítala úti um landið hafi dalað, skurðstofum víða verið lokað og fæðingarþjónusta takmörkuð.

Stytta þarf útkallstímann

„Ef heilbrigðiskerfið á að þjóna öllum landsmönnum jafnt þá þurfum við að efla sjúkraflutninga og stytta útkallstíma og flutning bráðveikra eða slasaðra á sjúkrahús,“ segir Sveinn. Hann leggur til að sérbúnar sjúkraþyrlur komi til viðbótar við sjúkraflugvélar Mýflugs og björgunarþyrlur LHG til að auka viðbragðsflýti. Ein sjúkraþyrlan verði t.d. staðsett á Suðurlandi, önnur á Höfn í Hornafirði, sú þriðja á Akureyri og sú fjórða í Stykkishólmi. Þessir staðir voru valdir út frá rekstrarlegum forsendum.

„Sjúkraþyrlur eru miklu hagkvæmari í rekstri en hinar stóru björgunarþyrlur LHG. Flugtími sjúkraþyrlu kostar rétt rúmlega 100 þúsund krónur, sem er margfalt minna en flugtími björgunarþyrlu,“ segir Sveinn. Sjúkraþyrlurnar munu fyrst og fremst sinna bráðatilfellum á sínum svæðum en ekki almennum sjúkraflutningum. Björgunarþyrlur sinni áfram krefjandi verkefnum enda eru þær t.d. búnar afísingarbúnaði. Sjúkraflugvélar sinni áfram sjúkraflutningum í lofti.

Hann segir að í þeim löndum sem við miðum okkur gjarnarn við séu alls staðar gerðar út sjúkraþyrlur auk björgunarþyrlna og sjúkraflugvéla. Í Þýskalandi er t.d. viðbragðsnet sjúkraþyrlna sem eiga að komast á vettvang hvar sem er í landinu innan 15 mínútna.

Sveinn skrifaði grein um málið sem birtist nýverið á vef Eyjafrétta (eyjafrettir.is) ásamt þeim Sæunni Magnúsdóttur og Hannesi Kristni Sigurðssyni, en þau eru í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn til bæjarstjórnar í Eyjum, og eins alþingismönnunum Vilhjálmi Árnasyni og Guðrúnu Hafsteinsdóttur.

Skjót viðbrögð eru mikilvæg

Þar er sagt að þegar um bráðatilfelli sé að ræða sé oft talað um „gullnu stundina“ – fyrstu klukkustundina eftir slys eða bráð veikindi. Snögg viðbrögð og læknishjálp geta bjargað lífi eða forðað frá örorku. Það þarf því ekki mörg slík tilfelli, þar sem tekst að koma í veg fyrir andlát eða örorku, til að jafna út kostnaðinn við sjúkraþyrlur sé einungis horft á peningahliðina.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert