Spáð er austlægri átt í dag, golu eða kalda og skúrum á sunnanverðu landinu, einkum austantil. Dálítil snjókoma verður í fyrstu norðaustanlands, annars úrkomulítið norðan heiða. Hlýnandi, hiti 5 til 10 stig síðdegis. Austan strekkingur í kvöld, með rigningu sunnanlands.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings.
„Akkúrat núna er fínasta veður á vesturhluta landsins,“ segir Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann bendir þó á að eftir hádegi er því spáð að það þykkni upp og verði örlítil úrkoma fyrir sunnan- og suðvestan og auk þess mun hvessa svolítið. Það verður þó þurrt að kalla fyrir norðan.
Sól er víða yfir landinu þennan morguninn en samkvæmt Marcel er henni ekki ætlað að vera nema fram að hádegi á sunnanverðu landinu.
Úrkoma sem nú er yfir austan mun færast yfir landið í dag en það bætir í úrkomu suðaustan til um hádegi.
Þeir sem vilja kjósa í sólinni á höfuðborgarsvæðinu og á sunnanverðu landinu þurfa því að hafa hraðar hendur.
Verður þá kannski ekki stemningsveður í kvöld fyrir kosningavökur og Eurovision-partí?
„Er ekki bara flott að vera í kósí heima og horfa á Eurovision þegar það er að rigna?“