Andlát: Halldór Jónsson

Halldór Jónsson verkfræðingur.
Halldór Jónsson verkfræðingur.

Halldór Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi forstjóri Steypustöðvarinnar, lést á Landspítala – háskólasjúkrahúsi í gærmorgun, 84 ára að aldri.

Halldór fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1937, sonur hjónanna Jóns Ólafs Ágústssonar Bjarnason raforkuverkfræðings og Elísabetar Halldórsdóttur fótsnyrtifræðings.

Halldór lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1957 og verkfræðiprófi frá TH í Stuttgart í Þýskalandi 1962. Hann fékk atvinnuflugmannsréttindi og blindflugsréttindi 1978 og sprengiréttindi 1990.

Halldór starfaði sem verkfræðingur hjá Almannavörnum 1962-1963, hjá Verkfræðistofu Bárðar Daníelssonar 1963 og hjá Almannavörnum og námsbraut á vegum þeirra í Bandaríkjunum 1963-1964. Hann var tæknilegur framkvæmdastjóri Steypustöðvarinnar hf. í Reykjavík frá 1964 og forstjóri og í stjórn fyrirtækisins frá 1967 til 2002. Þá var hann framkvæmdastjóri Raftækjasölunnar hf. með öðrum frá 1967. Þá stofnaði hann ásamt öðrum Steypustöð Suðurlands hf., Surtsey hf., Aðalbraut hf., Námuna hf. og útibú frá Steypustöðinni í Grindavík. Eftir starfslok hjá Steypustöðinni starfaði hann sem sjálfstæður verktaki, m.a. fyrir Kópavogsbæ.

Halldór var lengi fulltrúi í ráðgjafarnefnd Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins og sat í stjórn hennar. Hann var fulltrúi í Steinsteypunefnd, í stjórn Verslunarráðs Íslands og stjórn Verktakasambands og VFÍ. Halldór var formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi frá 1986 til 2003 og í flokksráði Sjálfstæðisflokksins. Hann gaf um tíma út blaðið Sám fóstra og skrifaði reglulega greinar og pistla í blöð og á blog.is.

Eftirlifandi eiginkona Halldórs er Steinunn Helga Sigurðardóttir. Börn þeirra eru Þorsteinn, Jón Ólafur, Pétur Hákon og Karen Elísabet.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert