Undirbúa PCR-skimanir fyrir apabólu

PCR-aðferðin er landsmönnum góðkunn eftir Covid-19.
PCR-aðferðin er landsmönnum góðkunn eftir Covid-19. Ljósmynd/Landspítali

Hægt verður að beita PCR-skimun­um til þess að greina apa­bólu hér á landi eft­ir tvær til þrjár vik­ur, að sögn Guðrún­ar Svan­borg­ar Hauks­dótt­ur, yf­ir­lækn­is á sýkla- og veiru­fræðideild Land­spít­ala.

Land­spít­al­inn býr yfir próf­um sem geta greint veir­ur skyld­ar apa­bólu­veirunni og veitt þar með sterk­an grun um til­vist sjúk­dóms­ins, aft­ur á móti þyrfti að senda slík sýni til Svíþjóðar til staðfest­ing­ar, eins og staðan er núna. 

Til þess að ráða bót á því hafa hvarfa­efni verið pöntuð til lands­ins. Þau ættu að ber­ast á næstu tveim­ur til þrem­ur vik­um, og verður þá hægt að greina veiruna hér­lend­is sam­dæg­urs, að sögn Guðrún­ar.

Mik­il út­breiðsla ólík­leg

Guðrún seg­ir eng­ar vís­bend­ing­ar um að apa­bóla sé kom­in til Íslands. Í ljósi þess að hún hafi verið að grein­ast í ná­granna­lönd­un­um, sé þó ekki ósenni­legt að hún muni ber­ast hingað. 

Aðspurð hvort PCR sýna­tök­ur verði opn­ar al­menn­ingi eða úrræði sem lækn­ir get­ur óskað eft­ir að nýta ef grun­ur vakn­ar um að sjúk­ling­ur sé með apa­bólu, vís­ar Guðrún á sótt­varna­lækni. 

Henni þykir þó lík­legt að ákvörðun um það ráðist af út­breiðslunni. Sýkla- og veiru­fræðideild muni greina þau sýni sem tek­in verða, óháð því hvernig staðið verði að sýna­tök­um.

„Það er ólík­legt að þetta nái mik­illi út­breiðslu hér á landi. Fólk þarf að vera í mjög ná­inni snert­ingu til þess að smit­ast.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka