Tjaldshreiður fannst í mölinni á Kjalarnesi þar sem unnið er að því að breikka Vesturlandsveg. Í stað þess að fjarlægja hreiðrið ákvað verktakinn að grafa í kringum það, svo hægt sé að koma ungunum á legg.
„Við getum ekki farið að eyðileggja hreiðrin. Við grófum bara í kringum þetta,“ segir Þröstur Sívertsen, staðarstjóri Ístaks, sem sér um verkefnið. Næsta skref framkvæmdanna er að fylla upp í svæðið með styrktarlagsefni. Hreiðrið verður þó ekki fjarlægt. „Við byggjum okkur bara í kringum hreiðrið þar til ungarnir verða fleygir. Hvenær sem það verður.“
Stefnt er að því að malbika fyrir lok júní. Þá þyrfti hreiðrið þó helst að vera farið. „Ekki nema þeir ætli að stoppa allar framkvæmdirnar,“ segir Þröstur glettinn.
Spurður hvort svona lagað komi fyrir oft jánkar Þröstur því og segir að svo virðist sem það sé einhvers konar vernd í því að gera hreiður í fyllingum líkt og þeirri sem um ræðir. Mögulega falli hreiðrið betur inn í umhverfið eða tolli betur en annars staðar. „Við keyrum þarna töluvert um með tæki. Það hreyfist ekkert við það.“
Þröstur segir einnig algengt að tjaldarnir verpi inni í vinnuvélum og öðrum tækjum. „Það er ekkert óalgengt, ef tæki standa í einhvern tíma.“