Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi stjórnvöld í Frakklandi og Þýskalandi harðlega í ræðu sinni undir liðnum störf þingsins í dag.
„Það voru sár vonbrigði að lesa fréttaflutning af því að sumar ESB-þjóðir hefðu notað glufu í viðskiptaþvingunum sambandsins til þess að selja Rússum vopn þrátt fyrir bannið sem komið var á eftir innlimun Rússlands á Krímskaga. Þar fóru forysturíkin, Þýskaland og Frakkland, fremst í flokki. Á sama tíma hiksta Þjóðverjar við að senda Úkraínumönnum vopn sem þá vantar sárlega.“
Með hiksta Þjóðverja vísar Diljá til fréttaflutnings The Telegraph um að afhending vopna sem þýsk stjórnvöld hafa lofað Úkraínu hafi ekki skilað sér.
Diljá sagði fullt tilefni til að að minna enn og aftur á skyldur okkar gagnvart vinum okkar í Úkraínu á fjórða mánuði stríðsátaka í landinu.
„Það hefur síðan tekið allt of langan tíma að komast að niðurstöðu um harðari refsiaðgerðir. Þar skiptir innflutningsbann á olíu frá Rússlandi sköpum en leiðtogar ESB komust loksins að samkomulagi um það í gær. Þar hefur auðvitað vegið þungt glæfraleg stefna sambandsins gagnvart viðskiptum við Rússland sem hefur gert Evrópu háða rússneskri orku,“ sagði Diljá og hélt áfram:
„Það er ömurlegt að hugsa til þess að Evrópa fjármagni stríðsrekstur Pútíns með olíu- og gaskaupum. Svo ræða menn það hér af fullri alvöru að við göngum í Evrópusambandið, m.a. út af öryggis- og varnarhagsmunum.“