Grætur ekki titilinn og fagnar sameiningunni

„Mér hefur alltaf fundið þetta absúrd, að hafa stéttina klofna,“ …
„Mér hefur alltaf fundið þetta absúrd, að hafa stéttina klofna,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fráfarandi formaður Félags fréttamanna. mbl.is/Hari

Sameining blaðamannastéttarinnar í eitt stéttar- og fagfélag tekur gildi í dag þegar Félag fréttamanna og Blaðamannafélag Íslands sameinast.

Hið fyrrnefnda, sem fram að þessu hefur verið undir BHM, tók einróma ákvörðun á síðasta aðalfundi um að flytja sig undir BÍ, með félagsmenn sína, sem eru á sjötta tug. Breytingin tekur gildi í dag.

„Mér hefur alltaf fundið þetta absúrd, að hafa stéttina klofna. Faglega eigum við miklu meira sameiginlegt með Blaðamannafélaginu en flestum þeim stéttum sem eru í BHM, þó að þau hafi reynst okkur alveg frábærlega,“ segir Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fráfarandi formaður Félags fréttamanna í samtali við mbl.is.

Í dag mun hún því að öllu óbreyttu missa formannstitilinn í hendur kollega sinnar og nöfnu: Sigríðar Daggar Auðunsdóttur, formanns BÍ.

Hún grætur þó ekki titilinn og fagnar sameiningunni.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður BÍ. Félagar FF heyra undir …
Sigríður Dögg Auðunsdóttir er formaður BÍ. Félagar FF heyra undir BÍ eftir sameininguna. Ljósmynd/Aðsend

Misstu sérstöðu innan stéttarinnar

Sigríður, sem hóf störf hjá fréttastofu útvarps á RÚV árið 1999, segir Félag fréttamanna hafa verið stofnað þegar Ríkisútvarpið var ekki orðið að opinberu hlutafélagi (ohf) og starfsmenn fréttastofanna, sem þá voru tvær, voru því opinberir starfsmenn. 

Hlutverk félagsins hafi breyst árið 2007, þegar lög um opinber hlutafélög tóku gildi og fréttamenn á RÚV misstu að miklu leyti sérstöðu sína innan blaðamannastéttarinnar.

Sem dæmi gerir FF til að mynda kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, eins og BÍ, á meðan flest aðildarfélög BHM semja við ríkið.

Eina rökrétta að sameina félögin

Sigríður segir að flestir sem hafa hafið störf hjá fréttastofu RÚV undanfarin ár hafi kosið að vera meðlimir í Blaðamannafélaginu, en ekki Félagi fréttamanna.

„Við höfum þess vegna alltaf verið að verða minni hópur, það eina rökrétta í stöðunni var að sameina félögin. Þetta var samþykkt einróma á aðalfundinum.“

Sigríður segist þó eflaust verða áfram einhvers konar tengiliður, þar til gengið hefur verið frá stofnun undirdeildar fyrir félaga í FF innan BÍ.

Fréttamenn bíða fregna. Flestir sem hafa hafið störf hjá fréttastofu …
Fréttamenn bíða fregna. Flestir sem hafa hafið störf hjá fréttastofu RÚV undanfarin ár hafi kosið að vera meðlimir í Blaðamannafélaginu, en ekki Félagi fréttamanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við höfum enn ákveðna sérstöðu, þar sem við erum enn ríkisstarfsmenn að einhverju leyti.“

Spurð hvers vegna sameiningin hafi ekki átt sér stað fyrr, segir Sigríður að málið hafi verið flókið upp á greiðslur og réttindi að gera. Margir hafi greitt í félagið í mörg ár. Það hafi sem betur fer leysts farsællega.

„Það missir enginn spón úr sínum aski við sameininguna. Bæði Blaðamannafélagið og BHM hafa sýnt okkur mikinn sveigjanleika og samningsvilja í þessu ferli. Það græða allir á þessu á endanum, bæði Blaðamannafélagið og við sem erum að ganga í það.

Þetta á eftir að verða stéttinni til mikillar blessunar."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka