Mannekla erlendis hefur áhrif á Icelandair og Play

Langar biðraðir hafa verið á Schiphol flugstöðinni í Amsterdam og …
Langar biðraðir hafa verið á Schiphol flugstöðinni í Amsterdam og hafa farþegar verið að missa af flugferðum vegna hægagangs í þjónustu. AFP/Evert Elzinga

Mikill mönnunarvandi á flugvöllum erlendis hefur haft neikvæð áhrif á starfsemi íslensku flugfélaganna Icelandair og Play. Vegna hægagangs meðal erlendra þjónustuaðila hefur flugferðum verið seinkað og í nokkrum tilfellum felldar niður. Þá hafa farþegar í einstaka tilfellum verið skildir eftir vegna langra biðraða á flugvöllum.

Flugumferð hefur stóraukist á síðustu vikum nú þegar heimsfaraldur Covid-19 er á undanhaldi víða í heiminum og sumarið er gengið í garð. Ferðaþjónustan er enn að ná sér eftir mikla lægð síðustu tvö ár og á það ekki síður við um starfsemi á flugvöllum þar sem erfiðlega hefur gengið að manna stöður.

Fjölmiðlar erlendis hafa lýst ófremdarástandi á flugstöðvum þar sem ferðalangar hafa víða þurft að bíða klukkustundum saman í löngum biðröðum í mikilli mannmergð. Hefur slæmt ástand á Schiphol flugvellinum í Amsterdam til að mynda vakið mikla athygli.

Farþegum reddað samdægurs

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, staðfestir að miklar tafir á afgreiðslukerfum á ákveðnum flugvöllum hafi haft neikvæð áhrif á starfsemi flugfélagsins, til að mynda í Dublin, Amsterdam, Manchester og Toronto. Hefur flugfélagið þurft að seinka flugferðum vegna ástandsins og í örfáum tilfellum fella þær niður. 

Þá hefur einnig komið fyrir að farþegar hafi hreinlega misst af flugi vegna mikilla tafa og langra biðraða sem myndast á flugstöðvum. Ásdís segir þó að í langflestum tilvikum sé hægt að koma farþegunum til baka samdægurs þar sem búið sé að auka umfang starfseminnar töluvert í sumar og eru flugferðir orðnar tíðari.

Valdi frekar seinkunum

Svipaða sögu er að segja af Play en Nadine Guðrún Yaghi, upplýsingafulltrúi félagsins, segir að flugfélagið hafi fundið fyrir áhrifum frá því að þjónustuaðilar á völlunum erlendis væru ekki að ná að manna stöðurnar og að skortur væri á starfsfólki. Nefnir hún til að mynda hægagang á flugvöllunum í Dublin og London. Vandamálið væri þó víðar. 

Í þau skipti sem farþegar lenda í löngum röðum á flugvöllum reyni flugfélagið eftir fremsta megni að bíða en félagið hefur lítið sem ekkert lent í því að farþegar missi af flugferðum. Hefur hægangurinn í þjónustu frekar valdið seinkunum á flugi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert