Logi Sigurðarson
Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir mikilvægt að ríkisvaldið taki ákvörðun um uppbyggingu varnarmannvirkja á Reykjanesskaga og fjármagni framkvæmdirnar þegar að þeim kemur.
Fannar sat fund Almannavarna og bæjaryfirvalda Grindavíkur um uppbyggingu varnargarða á Reykjanesskaganum í dag.
„Það má segja að stóra verkefnið sé hjá ríkisvaldinu og við treystum á það og teljum okkur vita að það verði staðið vel að því og stutt við bakið á Suðurnesjamönnum og íbúum þessa svæðis," segir Fannar í samtali við blaðamann mbl.is.
Hann segir ekki of seint að grípa til aðgerða og nú séu yfirvöld að horfa á stóra samhengið hvað varðar nýtt óróatímabil á Reykjanesskaga.
„Það var síðustu daga verið að leggja lokahönd á þessa undirbúningsvinnu,“ segir Fannar og bætir því við á fundinum hafi verið lagt áherslu á að vernda orkuverið í Svartsengi og íbúabyggð.
„Hérna eru nokkur eldgosasvæðið. Menn geta ekki getið sér til um það með neinni nákvæmni hvar þetta kann að koma upp, þannig það er allt undir, allt þetta svæði,“ segir Fannar.
Hann segir boltann nú hjá þjóðaröryggisráði og það eigi eftir að ráðast í kostnaðargreiningu og setja upp tímalínu fyrir verkefnið.