„Þessi tiltekni gjaldstofn er til umræðu vegna þess að fasteignamat í landinu hækkar mjög mikið og þá verður þetta svo kristaltært, þá kemur svo skýrt fram að við erum að tala um skattstofn þar sem fasteignaeigandinn þarf að taka á sig alla hækkun fasteignamatsins sem þó hefur á engan hátt neitt með það að gera að viðkomandi hafi meiri tekjur til að standa undir skattinum,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann var spurður um fasteignagjöld.
Þetta kom fram í svari Bjarna við fyrirspurn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, sem spurði hvort ráðherra þætti ástæða til að endurskoða með hvaða hætti fasteignagjöld eru lögð á af hálfu sveitarfélaga í ljósi þess hvernig þessi gjaldtaka hafi þróast.
Sigmundur sagði að fasteignagjöldum hafi verið ætlað að standa undir kostnaði en ekki vera aukatekjulind sem í ofanálag ráðist nú í auknum mæli af nánast tilviljanakenndum hlutum.
Heildarmat fasteigna á Íslandi hækkar um 19,9% frá yfirstandandi ári og verður 12.627 milljarðar króna, samkvæmt nýju fasteignamati Þjóðskrár Íslands fyrir árið 2023. Þetta er umtalsvert meiri hækkun en tilkynnt var um fyrir ári síðan, þegar fasteignamat hækkaði um 7,4 % á landinu öllu.
Bjarni telur þetta meingallað kerfi og það lýsi sér best þannig að hjá sumum fyrirtækjum er kannski enginn tekjuvöxtur en skattgreiðslan á að hækka um 20% ef menn ætla ekki að hreyfa við prósentunum.
„Þetta er ósanngjarnt og gengur örugglega mjög nærri mörgum fyrirtækjum,“ sagði Bjarni.