Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, segist vera að þétta samtalið við dómsmálaráðuneytið varðandi forsjármál barna.
Í gær var mikill viðbúnaður á Barnaspítala Hringsins vegna forsjármáls yfir 10 ára dreng. Nýverið var úrskurðað að lögheimili barnsins skyldi vera hjá föður þess en drengurinn hefur hingað til verið hjá móður sinni.
Fulltrúar lögreglu og sýslumanns mætti á svæðið, þar sem drengurinn var í lyfjameðferð, til þess að framkvæma aðför, samkvæmt dómsúrskurði.
Ásmundur kveðst ekki geta tjáð sig um mál einstaklinga. Hann telur þó að setja þurfi skýrar reglur þegar kemur að forsjármálum, þar sem litið sé betur til hagsmuna barnsins. Slíkt sé þó á forræði dómsmálaráðherra.
„Fyrir ekki svo löngu var ákveðið að við ætluðum í vinnu við að skoða samspilið milli barnalaga og barnaverndarlaga. Við munum kalla eftir upplýsingum um verklag og fleira.“
Barnalögin eru á forræði dómsmálaráðuneytisins en barnavernarlögin á forræði barna- og menntamálaráðuneytisins.
„Þegar kemur að svona málum almennt, þarf að vera samtal milli ráðuneytanna.“