Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út í kvöld vegna eldsvoða á milli Lambhaga og verslunarinnar Bauhaus. Að sögn varðstjóra er líklegast um yfirgefið hús að ræða.
Þrjár stöðvar eru staðnum og hafa þær náð að slá á mestallan eldinn. Líklega þarf þó að rífa þakið af húsinu til þess að komast í glæðurnar.
Ljós reykur stendur nú af húsinu í átt að Lambhaga en einnig kemur mikil gufa þegar vatnið, sem slökkviliðið notar, gufar upp.
Ekki er vitað til þess að slys hafi orðið á fólki.