Nýr meirihluti bæjarstjórnar í Hveragerði segir fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins aldrei hafa pantað nýjan dúk frá slóvenska framleiðandanum Duol fyrir loftborið íþróttahús til að blása upp á grunni Hamarshallarinnar og að aldrei hafi verið gerður samningur um slíkt.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá nýja meirihlutanum.
„Óljóst er hvers vegna þáverandi bæjarstjóri ákvað að fylgja ekki eftir ákvörðun þáverandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins um að panta nýjan dúk frá Duol. Þó er ljóst að upplýsingar sem koma fram í frétt frá fyrrum bæjarstjóra á vef bæjarins frá 28. apríl sl. um að samningur hafi verið undirritaður um kaup á nýjum dúk frá Duol er ekki rétt þar sem enginn samningur virðist liggja fyrir, heldur aðeins tilboð sem hefur einungis verið undirritað af hálfu Hveragerðisbæjar, en ekki Duol,“ segir í tilkynningu.
Jafnframt kemur fram að upplýsingar sem koma fram í frétt frá fyrrum bæjarstjóra frá 21. maí um að hægt sé að afpanta dúkinn séu rangar þar sem ekki sé hægt að afpanta það sem aldrei hefur verið pantað. Þá er bent á að 70% upphæðarinnar af dúknum hafi ekki verið greidd fyrirfram en þess er krafist í tilboði frá Duol.
„Því er ljóst að upplýsingar frá fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóra hans um pöntun og samningagerð á dúk frá Duol var ekki rétt og byggði ekki á neinum gögnum,“ segir í tilkynningunni.
Þá segir að Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar hafi kallað eftir upplýsingum um málið strax að loknum kosningum og þá hafi komið í ljós að nánast engin gögn lágu fyrir og erindinu var ekki svarað af fyrrum bæjarstjóra. Því var kallað eftir stöðu mála frá Duol.
„Samkvæmt sérfræðingum hjá Hveragerðisbæ þarf að blása húsið upp í síðasta lagi í ágúst en það má aðeins gera í mjög stilltu veðri. Ef dúkurinn berst eftir þann tíma er ekki víst að hægt verði að koma húsinu upp fyrir veturinn vegna þess að ekki er hægt að treysta á gott veður. Í þessu samhengi skipta miklu þær 6-8 vikur sem hafa tapast vegna aðgerðarleysis fyrrum meirihluta Sjálfstæðisflokksins í málinu.“
Bendir meirihlutinn á að eins og flestir Hvergerðingar héldu þau að málið hefði verið sett í ferli af fyrrum meirihluta og dúkurinn væri í framleiðslu. Það hafi því miður ekki reynst rétt.
„Þá kemur fram í svari Duol að miðað við stöðuna sé möguleiki að afhenda nýtt loftborið íþróttahús úr verksmiðjunni í byrjun október. Þá á eftir að flytja dúkinn til Íslands og koma honum upp. Miðað við þessar upplýsingar er ljóst að ekki verður komin upp ný Hamarshöll fyrr en í fyrsta lagi í lok október, líklega síðar, hvaða leið sem farin verður í uppbyggingu hennar, hvort sem keypt er loftborið íþróttahús eða fjárfest í hagstæðu stálgrindarhúsi,“ segir í tilkynningunni.
Nýi eirihlutinn segir ábyrgðina á stöðunni liggja alfarið hjá fyrrum meirihluta en ábyrgðin á framhaldinu sé í þeirra höndum. Þau leggi áherslu á að leita verði allra leiða til að tryggja íþróttastarf Hvergerðina næsta vetur.
Möguleikarnir í stöðunni séu því tveir:
„Það er von meirihlutans að allir sem að málinu hafa komið, Íþróttafélagið Hamar og öll bæjarstjórn muni vinna saman að því að leysa úr þessari alvarlegu stöðu sem upp er komin,“ segir í tilkynningunni.