Að sögn Martins Bødskov, varnarmálaráðherra Danmerkur, er nýr samningur milli Danmerkur og Íslands um varnarsamstarf gerður í þeim tilgangi að auka samstarf þjóðanna enn frekar. Þá er markmið hans einnig að þjóðirnar deili hvor með annarri gögnum sem tengjast öryggi og vörnum.
Eins og greint hefur verið frá, undirrituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Bødskov samning um varnarsamstarf nágrannalandanna tveggja í gær.
Mbl.is ræddi við Bødskov og Þórdísi Kolbrúnu á blaðamannafundi Norðurhópsins, sem fór fram á Hilton Nordica í dag. Þórdís Kolbrún opnaði fundinn með því að kynna hvað utanríkisráðherrar og varnarmálaráðherrar ríkjanna hafa rætt síðustu tvo daga á fundi fulltrúa Norðurhópsins í Reykjavík.
„Við höfum rætt þær hættur sem steðja að löndum Norðurhópsins vegna innrásarinnar í Úkraínu. Við ræddum einnig hvaða áskorunum við mætum á alþjóðavísu. Sem dæmi má nefna Kína og aðrar ógnir. Það hefur verið heiður fyrir Ísland að sinna formennsku Norðurhópsins,“ sagði Þórdís.
Spurður um hvað nýr samningur um varnarsamstarf þýði fyrir Ísland, segir Bødskov að samstarfssamningurinn muni styrkja tengsl Íslands og Danmerkur enn frekar, sérstaklega hvað varðar öryggismál.
„Það þýðir að við munum deila eftirlitsgögnum á milli landanna og að við munum vinna saman á hagnýtum grundvelli til að tryggja öryggi.“
Segist Bødskov vera mjög ánægður með að þeim hafi gefist tækifæri til að ræða samninginn og undirrita hann.
Að sögn Þórdísar Kolbrúnar er þetta einn af mörgum samstarfssamningum Íslendinga. Hún nefnir að sambærilegir samningar hafi þegar verið gerðir við Svíþjóð og Bretland.
„Markmiðið er að dýpka samstarfið milli þjóðanna og gera það meira straumlínulagað. Við höfum sameiginlegan skilning á því að vinna saman og deila því sem við getum í öryggis- og varnartilgangi,“ segir Þórdís og bætir við að núna hafi verið rétti tíminn til að klára þennan samning, með tilliti til þess sem er að gerast í kringum okkur. Vísar hún þá til stríðsins í Úkraínu.