Eldhúsdagsumræður sem fara fram á Alþingi í kvöld verða með breyttu fyrirkomulagi þar sem búið er að stytta umræðurnar úr þremur umferðum í tvær.
Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, segir að breytingarnar hafi verið gerðar til að bregðast við fjölgun flokka á þingi með tilheyrandi fjölgun ræðumanna. Hafa umræðurnar lengst of mikið, að mati þingflokksformanna, vegna þeirrar þróunar.
Voru formenn þingflokkanna og forseti Alþingis ásáttir um að stytta eldhúsdagsumræðurnar með umræddum hætti.
„Þegar við stóðum frammi fyrir því að skipuleggja þessa umræðu núna þá völdum við að þessu sinni einföldustu leiðina til að stytta umræðuna, það er að segja fella niður síðustu umferðina. Hafa þær tvær en ekki þrjár.“
Hann segir það verða tekið til skoðunar síðar meir hvort ástæða sé að fara í frekari eða róttækari breytingar. Nefnir hann til að mynda að stytta ræðutíma hvers og eins eða takmarka fjölda ræðumanna.
„Umræður af þessu tagi byggja á samkomulagi þingflokka. Þetta má segja utan við þær reglur sem þingsköp kveða á um. Þannig að þessi niðurstaða verður í raun og veru endurmetin. Það var enginn að binda sig við það að fara í fyrirkomulag sem yrði varanlegt héðan í frá heldur aðeins verið að prófa þetta.“
Í tilkynningu á vef Alþingis segir að strax að loknum eldhúsdagsumræðunum í kvöld verði sjónvarpað beint úr Alþingishúsinu umfjöllun sérfræðinga um það sem fram kemur í þeim.
Birgir segir viðtölin ekki á vegum þingsins heldur á vegum Ríkisútvarpsins. Hafa viðtölin ekkert með þingfundinn sem slíkan að gera.