Algjör stefnubreyting í áfengismálum

Skiptar skoðanir eru um lagafrumvarp dómsmálaráðherra.
Skiptar skoðanir eru um lagafrumvarp dómsmálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

Skiptar skoðanir eru á frumvarpi til laga um breytingu á áfengislögum sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra flutti fyrir Alþingi 25. maí sl. samkvæmt framkomnum umsögnum frá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR), Félagi atvinnurekenda (FA), Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ) o.fl.

Markmið frumvarpsins er að heimila þrönga undanþágu frá einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis með því að heimila smærri áfengisframleiðendum sem uppfylla ákveðin skilyrði laganna að selja áfengt öl í smásölu á framleiðslustað.

Frumvarp sama efnis hefur áður verið lagt fram á Alþingi en var ekki afgreitt. Núverandi frumvarp var lagt fram í aðeins breyttri mynd, m.a. vegna umsagna sem bárust við frumvarpið í fyrra.

Óskýrt og alltof víðtækt

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR, skrifar undir umsögn fyrirtækisins og segir að í frumvarpinu felist algjör stefnubreyting í áfengismálum á Íslandi og forsendubrestur fyrir einkaleyfi ÁTVR Einnig telur Ívar að það hafi alvarleg og verulega neikvæð áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar verði frumvarpið samþykkt.

Ívar gagnrýnir auk þess að í frumvarpinu segi, að með því sé hvorki ætlað að hrófla við hlutverki ÁTVR né þeirri áfengisstefnu sem hingað til hafi verið við lýði, þar sem frumvarpið feli í sér grundvallarstefnubreytingu og verulegt frávik frá einkaleyfi ÁTVR yrði það að lögum.

Þá segir hann að frumvarpið sé bæði óskýrt og alltof víðtækt. Ýmis atriði eru ekki nægjanlega skilgreind sem og er þörf á skýrari skilyrðum sem stuðla að markmiði frumvarpsins, sem er að styðja við „minni brugghús“ eða handverksbrugghús, einkum á landsbyggðinni, sem myndi þar með styðja við ferðamannaþjónustuna.

Einnig telur Ívar frumvarpið ekki byggt á reynslu annarra þjóða, s.s. Finna og Svía, og að það gangi í berhögg við Evrópurétt. Að lokum telur ÁTVR frumvarpið fela í sér stefnubreytingu frá gildandi áfengisstefnu sem myndi leiða til afnáms einkaleyfis ÁTVR til smásölu áfengis hér á landi.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert