Skoða hvernig megi gera frumvarp Lilju skýrara

Nefndarálit er væntanlegt á allra næstu dögum og þar verður …
Nefndarálit er væntanlegt á allra næstu dögum og þar verður tekið á flestum þeim atriðum sem komið hafa í ljós á fundum atvinnuveganefndar. Morgunblaðið/Ómar

Áætla þarf betur fjármagnshlið frumvarps Lilju Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, sem lýtur að því að hækka endurgreiðslu framleiðslukostnaðar stærri kvikmyndaverkefna úr 25 prósentum í 35 prósent, að mati atvinnuveganefndar.

„Við erum búin að vera að fara í gegnum málin, meðal annars fjármögnunina. Við erum að skoða þetta og sjá hvað er hægt að gera til að gera þetta skýrara,“ segir Gísli Rafn Ólafsson, varformaður atvinnuveganefndar.

Nefndarálit er væntanlegt á allra næstu dögum og þar verður tekið á flestum þeim atriðum sem komið hafa í ljós á fundum atvinnuveganefndar. 

Flest koma út í kringum núllið

Erfitt er að áætla umfang aðgerða sem þessa, enda sé ekki ljóst hve mörg eða hve stór verkefni komi til landsins á hverju ári. Þó kvikmyndaframleiðendur hafi sótt um vilyrði hér á landi sé ekki þar með sagt að þeir geti ekki hætt við. 

Sá óvissuþáttur snýr þó aðallega að fjárhæðunum. Því ætti að vera hægt að áætla hlutfallið milli kostnaðar ríkissjóðs við aðgerðir sem þessar, og skattalegs ávinnings. Greiddur er tekjuskattur af þeim launum sem eru greidd hér á landi, og virðisaukaskattur af vörum og þjónustu. 

„Flest löndin í kringum okkur eru að horfa á að þetta sé að koma út nokkurn veginn á núlli,“ segir Gísli.

Afleidd tækifæri

Stór verkefni geta þó skapað aðrar afleiddar tekjur, störf og önnur tækifæri. „Það kemur stór hópur af fólki til landsins með svona verkefnum og einhversstaðar þarf þetta fólk að gista og borða.“

Þá bendir hann á að Ferðamálastofa hafi bent á gögn sem sýni að fjörutíu prósent ferðamanna sem koma hingað, hafi fengið hugmyndina að heimsækja Ísland, á því að sjá landið í sjónvarpsþætti eða kvikmynd.

Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og varaformaður atvinnuveganefndar.
Gísli Rafn Ólafsson, þingmaður Pírata og varaformaður atvinnuveganefndar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert