Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar Vestmannaeyja í dag samþykkti hún einróma að fela bæjarstjóra og bæjarráði að taka upp samtal við stjórnvöld um að kanna fýsileika á gerð jarðgangna milli lands og Eyja.
Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi E listans, lagði fram tillöguna. Í samtali við mbl.is sagði hann tillöguna ganga út á að það skoðaðir verði möguleikar á að koma á vegtengingu við Vestmanneyjar.
„Það hefur svo sem mikið verið rætt um þetta í gegnum tíðina en það á eftir að klára ákveðnar rannsóknir hér á jarðlögum svo það sé hægt að segja til um það hvort þetta sé mögulegt eða ekki,“ segir Njáll.
Tillagan gangi því að hluta til út á að það rannsóknirnar verði kláraðar og reiknaður verið út fýsileiki þess að fara í þessa framkvæmd og samfélagslegur og félagslegur ábati þess að leggja jarðgöng til Eyja.
Aðspurður segir Njáll það hafa verið ansi táknrænt að leggja tillöguna fram á fyrsta fundi bæjarstjórnarinnar. „Við erum að fara í nýtt kjörtímabil og við viljum hugsa stórt. Þetta náttúrulega kostar mikið en við teljum að fyrir samfélagið hérna í Eyjum sé mjög mikilvægt að fá að minnsta kosti úr því skorið hvort þetta sé hægt eða ekki.“
Auk þess hafi allir bæjarfulltrúar verið sammála um að fara í þessa vegferð og taka þetta samtal við samgönguyfirvöld.
„Í kosningabaráttunni þá var þetta eitt af þeim málum sem komu til umræðu og öll framboðin lýstu sig í rauninni fylgjandi því að klára þessa rannsókn og gera þessa fýsileikakönnun,“ segir Njáll. Það hafi því ekki komið honum á óvart að tillagan skyldi einróma samþykkt.
„Næstu skref eru þá að víla að okkur þeim gögnum sem eru til og fara síðan í okkar þingmenn og okkar ráðherra um það að klára þessar rannsóknir á jarðlögum milli lands og Eyja,“ segir Njáll og bætir við að síðan þurfi að reikna út ávinning þess að koma á vegtengingu við Vestmannaeyjar.
„Við vitum það að reksturinn á Herjólfi kostar íslenska ríkið töluverðar fjárhæðir á ári og dýpkun Landeyjarhafnar kostar sömuleiðis sitt svo það sparast alltaf á öðrum stöðum,“ segir hann.
„Við teljum að einhvers staðar inni í framtíðinni komi að því að það verði þjóðhagslega arðbært að fara í þessa framkvæmd,“ segir Njáll að lokum.