Ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna virkjunar við Hnútu í Hverfisfljóti hefur verið kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála af fimm náttúruverndarsamtökum og hópi landeigenda.
Fréttablaðið greinir frá.
Landvernd, Eldvötn-samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, Náttúruverndarsamtök Suðurlands, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar eru samtökin sem hafa kært útgáfuna.
Er kæran meðal annars lögð fram á þeim grundvelli að virkjunin gæti falið í sér brot á náttúruverndarlögum þar sem eldhraunum, fossum og víðernum sem njóta verndar verði spillt. Þá myndi það brjóta í bága við lög um umhverfismat og útgáfu framkvæmdaleyfis ef ekki yrði tekið tillit til afar neikvæðs álits Skipulagsstofnunar.
Segir m.a. í kærunni að Skaftárhreppur búi yfir magnaðri, lítt raskaðri og verðmætri náttúru og að ferðaþjónustan sé mikilvægasta atvinnugrein sveitarfélagsins. Virkjunin geti spillt víðernum á stóru svæði, m.a. raskað Núpahrauni, Skaftáreldahrauni og fossaröðinni í Lambhaga og Faxa.
Þá er bent á að Skipulagsstofnun telji að ekki sé búið að sýna fram á brýna nauðsyn framkvæmdanna.