Frumvarp Lilju Alfreðsdóttur viðskipta- og menningarmálaráðherra var afgreitt út úr atvinnuveganefnd Alþingis í dag og var nefndarálit samþykkt einróma af öllum nefndarmönnum.
Stefán Vagn Stefánsson, formaður nefndarinnar og þingmaður Framsóknarflokksins, segir nefndarálitið vera í anda upprunalega frumvarpsins, en aðeins sé um að ræða smávægilegar lagfæringar.
Fjármálaráðuneytið gerði athugasemdir við útfærslu frumvarpsins þar sem meðal annars var bent á að fjárlagaliðurinn væri ófullnægjandi og þannig rúmuðust aðgerðirnar ekki innan fjárlaganna.
„Við tökum þann pól í hæðina að benda á mikilvægi þess að litið sé til raunkostnaðar við endurgreiðslu framleiðslukostnaðar síðustu ár, við fjárlagagerð næsta árs,“ segir Stefán.
Hann segir erfitt að áætla hve margir sæki um endurgreiðslu.
Undanfarin ár hafi ekki verið sett nægt fjármagn í þann lið sem átti að mæta 25 prósenta endurgreiðslu framleiðslukostnaðar og því hafi honum verið mætt í fjáraukalögum.
Með hinu nýja frumvarpi stendur til að hækka þá endurgreiðslu í 35 prósent, í tilfelli stærri verkefna.
Þessi atriði eiga ekki að hindra það að unnt sé að samþykkja frumvarpið á þinginu, að mati Stefáns. Hann hefur ekki trú á öðru en að það takist að afgreiða frumvarpið fyrir þinglok.
„Okkar mat er að þetta sé jákvætt fyrir þjóðarbúið í heild sinni, þá er einkum að líta til óbeinna áhrifa svo sem starfa sem myndast og svo landkynningin.“
Stefán segir að þó hér sé tekið úr einum vasa ríkissjóðs komi það til baka í annan vasa. „Fjármálaráðuneytið benti á að þetta væri vanfjármagnað og við bendum á að það komi af þessu tekjur annars staðar frá sem erfitt er að festa fingur á.“
Nefndin leggur til að það fari fram úttekt árið 2024, þegar reynsla er komin á þessa breytingu. Þá verði hægt að skoða hver heildræn áhrif hennar eru og meta þannig betur hverju hún skilar inn í hagkerfið.