Ljósmyndarinn Sindri Swan varð fyrir því óhappi í vikunni að detta aftur fyrir sig í runna þegar hann átti að mynda sjálfan forseta Íslands, forsætisráðherra, bæjarstjóra Akureyrarbæjar, framkvæmdastjóra menningarhússins Flórunnar og listamann.
Þó má segja að lán í óláni hafi verið að Halla Björk Reynisdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar, náði að festa viðbrögð myndefnisins á filmu. Miðað við myndina brá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra mest í brún og reyndi Guðni Th. Jóhannesson forseti að rétta hendina út, þó ekki fylgi sögunni í hvaða tilgangi.
Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri rak einnig upp stór augu en Kristín Þóra Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Flórunnar, virtist sjá hið spaugilega í atvikinu. Listamaðurinn Þórarinn Blöndal kippti sér ekki mikið upp við fall Sindra Swans, ef marka má myndina, heldur fylgdist með sallarólegur.
Myndin var tekin við opnunarhátíð Flórunnar, Menningarhúss í Sigurhæðum, síðastliðinn mánudag og fékk mbl.is að birta hana með leyfi Sindra Swans og Kristínar Þóru.
Á efri hæð menningarhússins verða vinnustofur fyrir listamenn og hönnuði og á aðalhæð stíga Guðrún Runólfsdóttir, Matthías Jochumsson og mörg fleiri úr menningarsögu landsins fram í sviðsljósið, eins og það er orðað í tilkynningu. Hönnuður sýningarinnar er áðurnefndur Þórarinn Blöndal. Myndlistarmenn með verk í sýningu eru þau Jóna Hlíf Halldórsdóttir og Jón Laxdal Halldórsson.