Anton Guðjónsson
„Það verður ekkert tækifæri til að ræða þessar risastóru breytingar sem verið er að gera og það er bæði ófaglegt og ólýðræðislegt,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, um nýja rammaáætlun.
„Þetta er ferli sem er búið að taka kannski tíu ár frá því að rammaáætlun þrjú tók til starfa. Nú gerir meirihluti umhverfis- og samgöngunefndar miklar breytingar og það er gert algjörlega án möguleika á umræðu því þau settu þetta á vefinn í gær og það er ekki nema tveir til þrír dagar eftir af Alþingi,“ segir Auður.
Þriðji áfangi rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur hlotið afgreiðslu innan umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis en nefndin afgreiddi þingsályktunartilllögu um rammaáætlunina á föstudaginn.
„Okkur finnst þetta vera ófagleg vinnubrögð. Grundvöllur rammaáætlunar er að taka ákvarðanir á faglegum grunni með aðkomu fjölbreytts hóps aðila og sérfræðinga. Þetta er mjög bagalegt. Það er búið að meta þessi landsvæði – annars vegar jökulárnar í Skagafirði og hins vegar Þjórsárver – þannig að þau eru mjög verðmæt og þau eiga að fara í verndarflokk og það á að friða þau fyrir orkuvinnslu,“ segir Auður.
„Í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur ekki fram neinn rökstuðningur sem heldur vatni gegn þessari faglegu vinnu sem hefur þó farið fram.“