Gefst tími til að endurhugsa frumvarpið

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands. Kristinn Magnússon

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það hafa verið sameiginlegt mat allra formanna þingflokka Alþingis að fresta umræðum um útlendingafrumvarpið. Greint hefur verið frá því að umdeildu frumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra hafi verið frestað til haustsins til að flýta fyrir þinglokum.

„Það er bara enginn tími til að ljúka því máli miðað við þann stutta tíma sem er eftir,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is um málið.

Nefndi Katrín þó að núna gæfist tækifæri til að endurskoða frumvarpið áður en það yrði aftur lagt fram. Benti hún þar að auki á að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefði lýst því yfir að hann væri opinn fyrir athugasemdum og samtali um frumvarpið. 

„Hann lagði sitt af mörkum til að reyna komast til móts við athugasemdir stjórnarmótstöðunnar en það nægði ekki til,“ tók Katrín fram.

Spurð um afleiðingar frumvarpsins á réttindastöðu flóttafólks sagðist Katrín ekki vilja tjá sig um það. „Núna er bara fallið frá málinu og síðan kemur það aftur fram og þá verðum við bara að sjá,“ sagði Katrín.

Spurð hvort að Vinstri Græn hafi stuðlað að því að frumvarpinu yrði frestað vísaði Katrín því á bug og sagði mikinn samhug hafa verið um það á þinginu að fresta málinu. Að lokum sagði Katrín að þetta hefði verið eina hugsanlega niðurstaðan ef að þinginu ætti einhvern tímann að ljúka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert