Umræðan í Rússlandi er allt annars eðlis heldur en á Vesturlöndum og er býsna einsleit. Fjölmiðlar í landinu eru hliðhollir stjórnvöldum og gagnrýnar raddir eru sjaldgæfar og fá lítið rými.
Þetta kom fram í viðtali við Árna Þór Sigurðsson, sendiherra Íslands í Rússlandi, í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Segir hann að sjónvarpsstöðvar í landinu séu meira og minna á bandi stjórnvalda.
„Það fer mjög lítið fyrir mótmælum núna, yfirvöld tóku hart á mótmælum strax í byrjun og refsilöggjöfin hér verið hert og allri umræðu er í raun og veru er haldið niðri og þá meina ég gagnrýnni umræðu,“ segir Árni.
„Við höfum orðið vör við það svona bara á götum úti að lögreglan er að stoppa fólk á förnum vegi, biðja um skilríki og jafnvel skoða síma og annað slíkt og það bendir nú til þess að eftirlitið sé verulega hert.“
Segir Árni að fregnir af ungum föllnum rússneskum hermönnum kunni að hafa áhrif á afstöðu Rússa til stríðsins. „Það eru fjölskyldur á bakvið alla fallna hermenn, það eru ættingjar og vinir og það er hópur og allt spyrst þetta út þó að það sé ekki mikið sagt frá þessu í fjölmiðlum.“
Í Rússlandi hefur opinberlega verið talað um að hundruð rússneskir hermenn hafi fallið á meðan Vesturlönd fullyrða að fjöldinn sé um 20.000.
„Orðræðan er mjög einsleit og hún er mjög sterk, fjölmiðlarnir hérna eru mjög skoðanamyndandi. Þeir sem eru andsnúnir þessum stríðsrekstri og gagnrýnir kannski velja einfaldlega að segja lítið.“
Segir Árni að áhrif viðskiptaþvingana og refsiaðgerða sjáist daglega í Rússlandi, verslanir eru margar lokaðar og íbúar finna fyrir því að verðbólgan hefur farið á flug og vöruverð hefur hækkað.
Þjóðhátíðardagur Rússa er í dag, 12. júní og segir Árni að ekki sé mikið um hátíðarhöld en þó verði flugeldasýningar í kvöld.
„Sú regla gildir nú hér að þegar svona frídagar lenda á helgi þá flyst fríið yfir á næsta virka dag, þannig að það er frí hér á mánudegi líka og þar með er þetta svolítið löng helgi og Rússar nota hann kannski mikið til þess að fara úr bænum, fara í sína sumarbústaði eða einhvers konar útivistarferðir.“