Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra taldi gagnrýni Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, um að hún stefni að því að hafa allt í upplausn á þingi það sem eftir lifi kjörtímabils, ómaklega. Sagði hún ummælin koma úr hörðustu átt, enda sé það flokkurinn hans sem oftast hefur borið ábyrgð á því að hleypa þinglokum í uppnám.
Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag gagnrýndi Bergþór þinglokasamkomulag sem takmarkaði ræðutíma þingmanna á lokadögum þingsins.
Taldi hann það sérstaklega athugavert í ljósi þess að tveimur dögum eftir að samkomulag náðist, lagði umhverfis- og samgöngunefnd fram nefndarálit um rammaáætlun, sem hefur verið til umræðu á þinginu frá 2016. Þar voru lagðar fram töluverðar breytingar sem komu á óvart, að hans sögn. Spurði hann hvort þetta væri forsvaranlegt.
Sagði Bergþór breytingarnar svo miklar að ekki allir stjórnarþingmenn treysti sér til að styðja málið.
Sakaði hann forsætisráðherra um að stefna í að hafa „allt í upplausn“ það sem eftir lifi kjörtímabils hvað varðar fyrirkomulag þingloka.
„Mér kemur mjög á óvart að hæstvirtur ráðherra, sem er nú verkstjóri þessarar ríkisstjórnar, telji að þær grundvallarbreytingar sem gerðar eru á rammanum, með áliti meirihluta nefndarmanna, séu eitthvað sem þingflokksformenn hefðu átt að geta rætt áður en það nefndarálit var rammað inn,“ sagði Bergþór.
Katrín tók ekki vel í gagnrýnina og benti m.a. á að Miðflokkurinn væri ekki aðili að samkomulaginu sem um ræðir.
„Herra forseti. Mér þykir það nú koma úr hörðustu átt og jafnvel vera nokkuð kúnstugt þegar þingmaður Miðflokksins talar um að sú sem hér stendur sé sú sem hleypi þinglokum í uppnám. Ef við skoðum þinglok undanfarinna ára, þá held ég að það sé nú fremur Miðflokkurinn sem hafi verið í því hlutverki að hleypa þeim í uppnám,“ sagði Katrín.
Þá svaraði hún spurningu Bergþórs og kvaðst telja það forsvaranlegt að skrifa undir samkomulagið, enda hefði hún vænst þess að athugasemdir um það hefðu verið ræddar á fundi þingflokksformanna.
„Nú er verið að afgreiða mál úr nefndum og það liggur algerlega fyrir að þau voru ekki öll komin úr nefnd þegar skrifað var undir umrætt samkomulag. Þannig er það oft og iðulega og eðlilega verða breytingar á málum í nefndum þegar gengið er frá endanlegum nefndarálitum. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt,“ sagði Katrín.