Jón Magnús Kristjánsson á fyrir höndum „gríðarlega flókið verkefni“ í samstarfi við fleiri aðila sem beinist að því að bæta bráðaþjónustu í landinu. Hann starfaði áður sem yfirlæknir bráðadeildar Landspítala og hefur nú fengið það verkefni að leiða teymi um bráðaþjónustu í landinu vegna alvarlegrar stöðu hennar.
Enginn verðmiði hefur verið settur á vinnu teymisins heldur fylgir teyminu fjármagn „innan skynsemismarka.“
„Ég er alveg rosalega þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri til þess að vinna að umbótum í bráðaþjónustunni á Íslandi og leggja mitt af mörkum til þess að létta á ástandinu sem þar er,“ segir Jón Magnús í samtali við mbl.is.
Eins og lýst hefur verið í fjölmiðlum undanfarið er staðan á bráðamóttöku Landspítala alvarleg. Nú síðast greindi Morgunblaðið frá því að móðir hafi þrisvar á tíu dögum farið með dóttur sína þangað til að fá loks grun sinn staðfestan um að dóttirin, nýbökuð móðir, væri með heilahimnubólgu.
Það hlýtur að vera flókið verkefni framundan?
„Þetta er gríðarlega flókið verkefni og krefst samvinnu mjög margra í öllu heilbrigðiskerfinu. Það er hins vegar greinilegt að það er ákveðin breyting með nýju teymi og tækifæri til þess að gera raunverulegar úrbætur,“ segir Jón Magnús.
Síðan tilkynning, um að teymið tæki brátt til starfa, barst í síðustu viku, hafa bæði formaður félags hjúkrunarfræðinga og yfirlæknir bráðadeildar Landspítala sagst vongóð um að teymið muni hafa jákvæð áhrif.
Heldurðu að teymið muni standa undir þessum væntingum?
„Það er okkar von að við náum að standa undir þeim væntingum en verkefnið er, eins og þú segir, mjög flókið og ekki í hendi að það takist. Ástandið hefur verið mjög slæmt mjög lengi þannig að eðlilega gætir mikillar óþolinmæði eftir úrbótum,“ segir Jón Magnús og bætir við:
„Þegar er búið að vinna nokkra undirbúningsvinnu. Ég er vongóður um að það verði breytingar á ástandinu fyrir árslok. Unnið er hörðum höndum að því að hrinda í framkvæmd úrbótum sem geta dregið hratt úr álaginu á bráðamóttökunni. Þær miða fyrst og fremst að því að einstaklingar fái þjónustu annars staðar í kerfinu, þ.e. að fólk fái betri og réttari þjónustu strax, í stað þess að það fái þjónustu sína á bráðamóttöku.“
Hvernig ætlið þið að stuðla að því?
„Það eru margvíslegar aðgerðir í gangi. Eitt af því er að Landspítalinn er að rýmka biðþjónustu svokallaðrar bráðadagdeildar og taka upp fjarþjónustu fyrir skjólstæðinga heilsugæslu og hjúkrunarheimila. Oft þurfa einstaklingar rannsóknir eða frekari skoðun fljótt en ekki endilega samstundis. Það er hægt að veita þeim þjónustu í þessari einingu næsta dag eða jafnvel samdægurs þó viðkomandi komi ekki beint á bráðamóttökuna,“ segir Jón Magnús og jafnframt:
„Síðan er samstarf við heilsugæsluna og Læknavaktina um þá þjónustu sem hægt er að veita þar. Það er samstarf við Kragasjúkrahúsin um að Landspítalinn verði ákveðinn bakhjarl í flóknari rannsóknum utan dagvinnutíma, þannig að einstaklingar geti klárað sína þjónustu þar. Svo erum við líka í samstarfi við Félag fyrirtækja í velferðarþjónustu, Félag heilbrigðisfyrirtækja – þ.e. hjúkrunarheimilin og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstöðvar – og við velferðarsvið Reykjavíkurborgar. Nálgunin er svolítið öðruvísi núna. Þetta er eitt af þeim málum sem er efst á forgangslista heilbrigðisráðuneytisins og það er mjög víðtækt samráð og samstarf til þess að leysa úr þessu.“
Fjöldi aðila koma að viðbragðsteyminu: Heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands, Landspítali, heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Læknavaktin, Samtök heilbrigðisfyrirtækja og Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu.
Eru allir sammála um það hvaða leiðir á að fara?
„Það er mjög breiður stuðningur við þetta verkefni og að setja þetta fram með þessum hætti. Síðan kemur hver og ein eining með hugmyndir til úrbóta. Verkefnið snýst ekki síst um að koma á sem bestu samstarfi á milli mismunandi eininga og að setja fram heildstæða sýn á bráðaþjónustuna til framtíðar,“ segir Jón Magnús.
Eitt af markmiðum teymisins er að „hlúa sérstaklega að mannauði þar sem mest álag er, eins og á bráðamóttöku Landspítala.“ Spurður um það hvernig teymið ætli sér að gera það, segir hann það í höndum mannauðsdeildar Landspítala.
„Ráðuneytið mun styðja Landspítalann til þess að hlúa að sínum mannauði. Ég ætla ekki að taka fram fyrir hendurnar á mannauðsdeild Landspítalans eða yfirmönnum þar, heldur að styðja þau í þeim aðgerðum sem þau telja heppilegar,“ segir Jón Magnús.
Aðspurður segir hann að engin ákveðin fjárhæð hafi verið nefnd sem fylgja eigi teyminu.
„Við höfum fengið þær upplýsingar að þetta sé efst á forgangslista og því fylgi það fjármagn sem þarf, innan skynsemismarka,“ segir Jón Magnús.
Hann bendir á að þetta sé í fyrsta sinn sem myndast hefur breið samstaða „um þetta mikilvæga mál, þar sem er sameiginleg sýn á rót vandans, þ.e.a.s. annars vegar skort á heilbrigðisstarfsmönnum víðs vegar í kerfinu og hins vegar þörf á auknum úrræðum fyrir einstaklinga með færniskerðingu.“