„Þetta kom til þannig að við höfum verið að fljúga heimsferðir fyrir National Geographic við góðan orðstír og National Geographic varð síðan hluti af Disney-samstæðunni. Þeir fréttu af þessu fyrra samstarfi og báðu um samstarf varðandi sérstakar Disney-ferðir,“ segir Jóhann Gísli Jóhannsson, forstöðumaður sölu- og markaðsmála hjá Loftleiðum Icelandic, dótturfélagi Icelandair Group.
Icelandair-vél með íslenskri áhöfn munu fljúga í samstarfi við Disney næsta sumar. Disney hefur kynnt nýja lúxusferð í kringum heiminn með viðkomu í öllum Disney-görðum heimsins og kostar ferðin um 14,5 milljónir íslenskra króna.
„Þetta er virkilega spennandi og áhugavert og mikil viðurkenning fyrir það starf sem við höfum verið að vinna í þessum heimsferðum að það sé leitað til okkar með þetta svo við erum mjög stolt og spennt fyrir þessu samstarfi,“ segir Jóhann.
Loftleiðir Icelandic sérhæfa sig í sérstökum ferðum að sögn Jóhanns. Á veturna hafi þau flogið á Suðurskautslandið og síðan hafa þeir boðið upp á áðurnefndar heimsferðir sem eru byrjaðar aftur eftir lægð þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst.
„Við erum nýbúin með tvær ferðir og sex ferðir verða farnar það sem eftir er af árinu. Síðan verða tvær vélar fastar í þessum verkefnum á næsta ári þegar við förum 18-20 ferðir fyrir fimm viðskiptavini,“ segir Jóhann.
Líkt og áður segir er áhöfnin í Disney-ferðinni íslensk og verða 14 starfsmenn í henni. Ferðin kemur til með að taka 24 daga og verður áhöfnin sú sama frá byrjun til enda. Jóhann segir mjög eftirsóknarvert að fá að taka þátt í ferð sem þessari og um fína tilbreytingu sé að ræða við áhafnarmeðlimi.
„Það sem hefur verið helsti kosturinn hjá okkur er frábær frammistaða okkar áhafna og matreiðslumeistara sem hefur gert útslagið. Hver sem er getur skaffað vél og sæti en síðan er það þjónustan um borð og hvernig þetta er allt saman útfært sem hefur gert það að verkum að við erum eftirsóttari heldur en aðrir,“ segir Jóhann.
Flugvél Icelandair verður útfærð sérstaklega fyrir þessa ferð og verður einungis pláss fyrir 75 farþega. Aðspurður segir Jóhann vélina ekki verða ósvipaða Saga Class nema það sé örlítið meira rými og meiri halli í sætunum.
Þá verður vélin Disney-skreytt sem hluti af heildarupplifun ferðarinnar svo félagarnir Mikki mús og Andrés önd munu meðal annars sjást víða í vélinni, að sögn Jóhanns.